Seðlabanki Íslands hefur lækkað hagvaxtarspá ársins og spáir því nú að hagvöxturinn verði 2,5% í ár en fyrri spá hljóðaði upp á 3,1% hagvöxt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag.
Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar var hagvöxtur í fyrra 2,6% en ekki 3,1% eins og í fyrri áætlun. Munar þar mest um áðurnefnda endurskoðun á vexti þjóðarútgjalda en á móti lagðist heldur hagstæðara framlag utanríkisviðskipta.
Endurskoðaðar tölur fyrir fyrsta fjórðung þessa árs og fyrstu tölur fyrir annan fjórðung gefa jafnframt til kynna að efnahagsumsvif það sem af er þessu ári hafi verið minni en spáð var í ágúst.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var hagvöxtur á fyrri hluta ársins 2,4% en í ágúst var spáð 3,2% vexti. Lakari vöxtur skýrist einkum af endurskoðun talna Hagstofunnar fyrir fyrsta fjórðung, auk þess sem neikvætt framlag birgðabreytinga reyndist meira á árshelmingnum en spáð hafði verið.
„Eins og rakið hefur verið í fyrri heftum Peningamála má búast við að efnahagsbati í kjölfar fjármálakreppunnar verði ójafn og hefur sú verið reyndin. Þannig dróst landsframleiðslan saman milli ársfjórðunga um u.þ.b. 1% á öðrum fjórðungi og kom sá samdráttur í kjölfar tæplega 2% aukningar milli fjórðunga á fyrsta fjórðungi,“ segir í Peningamálum.
Samkvæmt spánni mun ársfjórðungslegur vöxtur landsframleiðslunnar nema tæplega 2% á þriðja fjórðungi og tæplega 1% á þeim fjórða. Þetta jafngildir því að landsframleiðslan á seinni hluta ársins vaxi um 2,6% frá sama tíma fyrir ári og að árshagvöxtur verður 2,5% í ár í stað 3,1% í ágústspánni.
Samdráttur í samneyslu
Meginástæða lakari hagvaxtar í ár miðað við ágústspána er að nú er gert ráð fyrir meiri samdrætti samneyslu en í ágúst. Eins og áður hefur komið fram er búist við minna umfangi fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á meginhluta spátímans en gert var í ágúst, sem gerir það að verkum að innflutningur á aðföngum til álframleiðslu verður minni en áður var talið.
„Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður því hagstæðara á næsta ári en búist var við í ágúst og hagvöxtur því nokkru meiri á árinu þrátt fyrir hægari vöxt innlendrar eftirspurna,“ segir í Peningamálum sem komu út í dag.
Spá 2,9% hagvexti á næsta ári
Gert er ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði 2,9% í stað 2,2% í ágústspánni. Spáð er að hagvöxtur færist nokkuð í aukana árið 2014 og verði um 3,5% sem er svipað og í ágústspánni. Reiknað er með sambærilegum hagvexti árið 2015. Meðalhagvöxtur á spátímanum er því rétt yfir 3% sem er í takt við langtímameðalhagvöxt þjóðarbúsins.
Eins og í fyrri spám bankans er megindrifkrafta hagvaxtarins að finna í innlendri eftirspurn og þá sérstaklega einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu sem leggja nokkuð svipað til hagvaxtarins.
Vegna endurskoðunar Hagstofunnar á hagvexti síðasta árs og á fyrri hluta þessa árs mælist landsframleiðslan nú tæplega 1% minni en reiknað hafði verið með í ágústspá Seðlabankans. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að landsframleiðslan verði um 12% meiri í lok spátímans en í ár, sem er lítillega meiri vöxtur en var áætlað í ágúst útgáfu Peningamála, að því er fram kemur í Peningamálum sem komu út í dag.