Einkaneysla á seinni helmingi ársins hefur ekki verið eins mikil og á fyrri helmingi ársins. Seðlabankinn reiknar þó áfram með að einkaneyslan verði 3% á þessu ári.
Í Peningamálum Seðlabankans segir að svo virðist sem efnahagsumsvif á þessu ári verði minni en búist var við.
Á öðrum fjórðungi jókst einkaneysla nokkru meira en spáð var eða um 4,7% frá fyrra ári samanborið við 2,8% í ágústspá Seðlabankans. Bankinn bendir á að um nokkurt skeið hafi legið fyrir að áhrif ýmissa tímabundinna þátta á vöxt einkaneyslunnar færu dvínandi á seinni hluta þessa árs og í spám Seðlabankans hefur því verið gert ráð fyrir að hægja myndi á vextinum á þessum tímamótum þegar hefðbundnir drifkraftar einkaneyslunnar
þurfa í auknum mæli að standa undir vexti hennar. T.a.m. munu sérstakar útgreiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar dragast hratt saman auk þess sem dregið hefur úr kaupmáttaraukningu launa.
Þær vísbendingar sem oftast er horft til varðandi þróun einkaneyslu benda til þess að jafnvel hafi hægt ívið meira á vexti einkaneyslu á þriðja fjórðungi en búist var við. Árstíðarleiðréttar tölur kunna því jafnvel að sýna samdrátt frá öðrum fjórðungi. Gangi þetta eftir mun ársvöxtur einkaneyslu lækka í 2,5% sem er nokkru minni vöxtur en í ágústspánni.
Sérstaklega gefur greiðslukortavelta til kynna að hægt hafi á vexti einkaneyslu en hún jókst um 1,4% á fjórðungnum frá sama tíma fyrra árs. Á móti þessu vegur að samkvæmt væntingavísitölu Gallup hafa væntingar neytenda á þessu ári mælst hærri en í fyrra og fyrirhuguð stórkaup hafa heldur aukist þótt nokkurt bakslag hafi orðið í októbermælingu væntingavísitölunnar. Því ríkir nokkur óvissa um þrótt áframhaldandi bata einkaneyslunnar.
Gert er ráð fyrir að einkaneysla vaxi um 3% á þessu ári. Það er sami vöxtur og spáð var í ágúst en felur í sér lægra neyslustig þar sem einkaneysla síðasta árs var lækkuð við endurskoðun þjóðhagsreikninga. Á næstu árum er spáð áþekkum meðalársvexti einkaneyslu og í ár, eða um 3%, sem er svipaður vöxtur og langtímameðalvöxtur fram að fjármálakreppunni árið 2008.