Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur og er það í takt við væntingar greiningardeilda. Hinir eiginlegu stýrivextir eru því komnir í 6%.
Minni verðbólga og minni hagvöxtur
„Þjóðhagsspá Seðlabankans bendir til nokkru minni hagvaxtar í ár en spáð var í ágúst. Á móti kemur að hagvöxtur á næsta ári verður meiri en áður var spáð og horfurnar á spátímabilinu því svipaðar þrátt fyrir mótvind alþjóðlegrar efnahagsþróunar. Efnahagsbatinn heldur því áfram með vaxandi fjárfestingu og stöðugum vexti einkaneyslu, og slakinn í þjóðarbúskapnum hverfur á spátímabilinu.
Verðbólga hefur verið nokkru minni en spáð var í ágúst. Horft fram á veginn vegast á meiri slaki í þjóðarbúskapnum um þessar mundir en spáð var í ágúst og töluvert lægra gengi krónunnar en þá var reiknað með. Á heildina litið eru verðbólguhorfurnar metnar svipaðar. Óvissa um gengisþróun á spátímanum leiðir til samsvarandi óvissu um þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga. Verðbólguvæntingar eru enn yfir markmiði bankans, þótt þær hafi lækkað nokkuð á suma mælikvarða.
Laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hefur stutt við efnahagsbatann. Hækkun vaxta undanfarið rúmt ár og hjöðnun verðbólgu hafa dregið umtalsvert úr slaka peningastefnunnar. Eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar. Grunnspá Seðlabankans bendir til þess að núverandi nafnvextir bankans nægi til þess að verðbólgumarkmiðið náist á spátímanum. Það er þó m.a. háð því að endurskoðun kjarasamninga á nýju ári samrýmist hjöðnun verðbólgu að markmiðinu,“ segir í tilkynningu frá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Sérstakur kynningarfundur sendur út á vef bankans klukkan 10:30 þar sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans munu færa rök fyrir vaxtaákvörðuninni, jafnframt því sem efni fjórða heftis Peningamála á árinu verður kynnt.
Næsti vaxtákvörðunardagur peningastefnunefndar Seðlabankans verður þann 12. desmber nk.
Daglánavextir bankans verða 7%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 6%, hámarksvextir á 28 daga innistæðubréfum 5,75% og innlánsvextir 5%. Vextir Seðlabankans hækkuðu síðast í júní og hækkuðu þá um 0,25 prósentur.