Verð sjávarafurða í heild hefur haldist hátt allt þetta ár og hækkað flesta mánuði ársins. Hins vegar hefur verð á botnfiskafurðum í heild lækkað frá því sem það fór hæst haustið 2011. Á þetta sérstaklega við um þorskafurðir.
Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands. Þorskafurðir vega tæplega þriðjung í útflutningi sjávarafurða. Helst er talið að rekja megi þessa verðlækkun til þess að þorskafurðir voru orðnar hlutfallslega dýrar auk þess sem talið er að framboð á Atlantshafsþorski muni aukast um 8-10% á þessu ári. Í spá Seðlabankans nú er gert ráð fyrir að verð sjávarafurða hækki um tæplega 2% á þessu ári í stað 2,6% í ágústspá bankans.
Talið er að framboð á þorski úr Atlantshafi muni aukast um allt að fimmtung á næsta ári. Af þessu leiðir allnokkra óvissu um þróun á verði þorskafurða á næstu mánuðum. Frekar verður að teljast líklegt að verðið gefi nokkuð eftir. Á móti kemur að framboð á öðrum botnfiski mun annað hvort standa í stað eða dragast saman og ætti það að hækka verð á þessum tegundum. Þá bendir framvirkt verð til þess að verð á mjöli og lýsi hækki verulega á næstu ársfjórðungum og þá er því spáð að verð á ýmsum öðrum fiskafurðum muni styrkjast nokkuð á næsta ári. Að öllu samantöldu er nú gert ráð fyrir að verð sjávarafurða í heild haldi áfram að hækka fram á fyrri hluta næsta árs sem gerir það að verkum að árshækkun sjávarafurðaverðs verður um 2% á næsta ári.