Íslendingar eru duglegir við að endurnýja raftæki þessi misserin, en á fyrstu 10 mánuðum ársins hefur velta í raftækjaverslun aukist um 7%. Fata- og húsgagnasala heldur þó áfram að vera nokkuð rýr, en sala á rúmum er þar undantekningin og hefur aukist um 10% á árinu. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Segir þar að veltutölur úr smásöluverslun segi svipaða sögu og aðrir mælikvarðar á einkaneyslu og að dregið hafi verið úr henni.
Fataverslun hefur átt erfitt uppdráttar hér á landi síðustu misserin, og var október þar engin undantekning. Á föstu verði, og leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum, dróst velta í fataverslun saman um 12,7% í mánuðinum frá sama tíma í fyrra.
Meiri gangur hefur verið í verslun með raftæki, enda óhægara um vik að flytja þau með sér milli landa en til dæmis föt segir greiningardeildin. Raftækjaverslun tók mikinn vaxtarkipp í fyrra, en í ár hefur vöxturinn verið öllu hægari. Á fyrstu tíu mánuðum ársins óx raftækjaverslun að jafnaði um ríflega 7% frá sama tíma í fyrra, árstíðaleiðrétt á föstu verðlagi.
Húsgögnin virðast mæta afgangi þegar innbú heimilanna eru endurnýjuð þessa dagana. Húsgagnaverslun hefur þannig dregist saman um ríflega 60% undanfarin fimm ár, og mældist samdrátturinn í húsgagnaverslun 6% á milli ára í október, ef leiðrétt er fyrir verðlagsbreytingum og árstíðabundnum þáttum. Landsmenn spara þó síst við sig í svefnherberginu þegar húsgögn eru annars vegar, og hefur sala á rúmum aukist um 10% að raunvirði það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra.