„Vandamálið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er að landið framleiðir ekki nægan gjaldeyri til að standa undir skuldbindingum gagnvart erlendum kröfuhöfum og jöklabréfaeigendum. Skuldbindingarnar nema í dag um 1.200 milljörðum króna og við eigum ekki gjaldeyri til að mæta þeim.“
Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Gjaldeyrisforðinn (sem er tekinn að láni) og jákvæður viðskiptajöfnuður standa sennilega undir greiðslum sem tengjast afborgunum af erlendum lánum atvinnulífsins og opinberra aðila næstu ár – en rétt svo. Til að borga kröfuhöfum þyrftum við að hafa í handraðanum á næstu árum um 1.200 milljarða króna aukalega í erlendum gjaldeyri,“ segir Tryggvi og að við þá upphæð bætist árlega um 70 milljarða vaxtakostnaður og arður af hlutabréfum í bönkum. Upphæðin muni því fara hækkandi eftir því sem tíminn líði á bak við gjaldeyrishöft.
„Viðskiptaafgangur landsins, þ.e. munurinn á inn- og útflutningi og nettó vaxtagreiðslum til útlanda, stendur tæpast undir afborgunum og vöxtum sem við þegar þurfum að standa í skilum með, hvað þá stendur hann undir því að borga af höfuðstól og vöxtum krafna erlendra kröfuhafa.
Hugsanlega væri þó hægt að greiða upphæðina til baka með því að auka viðskiptaafgang landsins en þá þyrfti að veikja gengi krónunnar gríðarlega, sennilega um 20-30%, allt þar til lánin hefðu verið greidd upp. Lífskjör myndu versna eftir því. Í mínum huga er sú leið algjörlega ófær. Hún myndi leiða til efnahagslegrar gjöreyðingar og fólksflótta. Þetta eru stór orð en því miður sönn,“ segir í greininni.
„Ráðamenn eiga eingöngu að huga um hagsmuni Íslendinga – kröfuhafar hugsa um sína. Það má ekki endurtaka Icesave-ævintýrið og undirgangast hvað sem. Sennilega þarf að afskrifa stóran hluta eignanna og það mun kalla á viðbrögð erlendra aðila. Lögsóknir, hótanir og hræðsluáróður munu einkenna alla þá umræðu. En hvað er það miðað við hagsmuni þjóðarinnar okkar?
Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir alvarleika málsins, því fyrr getum við horft óttalaus til framtíðar. Við brugðumst rétt við hruni bankanna og ég óska að við berum gæfu til að bregðast rétt við þessari vá,“ segir í grein Tryggva sem má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.