Það er ekki aðeins hún Vilborg Gissurardóttir sem stefnir að því að ganga á suðurpólinn. Forstjóri Iceland-keðjunnar, Malcolm Walker, sem er Íslendingum vel kunnur fyrir vináttu sína og viðskipti við Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, stefnir á að ganga sjálfur á pólinn núna í nóvember og desember. Þetta kemur fram í frétt Huffington Post.
Tilefni ferðarinnar er að 100 ár eru liðin frá ferð Bretans Roberts Scotts á pólinn. Auk þess segist Walker hafa fengið löngun í frekari ævintýramennsku eftir að hafa flogið yfir norðurpólinn árið 2010 og síðan þá hafi hann klifið meðal annars upp í fjórðu búðir Everest-fjallsins í fyrra. Ferðin verður til styrktar bresku Alzheimer-samtökunum, en Iceland-keðjan hefur síðustu ár verið dugleg að styðja þau.
Gert er ráð fyrir að ferðin taki um 19 daga, en með í för eru þrír hermenn sem særðust í Afganistan en hafa nú náð bata og snúið aftur í herinn auk Matthews Pinsents, fjórfalds ólympíumeistara í róðri.
Í fréttinni er haft eftir Walker að hann hafi ávallt talið það gott fyrir viðskiptafólk að stíga út fyrir þægindarammann stöku sinnum, jafnvel þótt þetta skref hans megi jafnvel teljast nokkuð róttækt.
Fyrir rúmri viku keypti Walker 37% hlut í Ísland-verslun ehf. sem rekur Iceland-verslun hérlendis og er í eigu Jóhannesar Jónssonar. Sagði Walker áður í samtali við fréttavef Vísis að aðild hans að versluninni hérlendis væri greiði við Baugsfeðga.