EFTA-dómstóllinn veitti í dag Hæstarétti ráðgefandi álit varðandi túlkun á hugtakinu innistæða. Um er að ræða mál spænska bankans Aresbank gegn Landsbankanum, Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslensku stofnanirnar af 30 milljóna evra kröfu Aresbank.
Árið 2008 millifærði Aresbank samtals 30 milljónir evra og 7 þúsund pund til Landsbanka Íslands. Samdist svo um, að Landsbankinn skyldi endurgreiða þessa fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum á fyrirfram ákveðnum gjalddögum. Fjármunirnir voru ekki lagðir inn á sérstakan reikning í nafni Aresbank og ekki gaf Landsbankinn út sérstök skilríki til Aresbank fyrir móttöku fjárins.
Eftir miklar hræringar á alþjóðafjármálamörkuðum í september og október 2008, fór svo að þrír stærstu viðskiptabankar landsins, þar á meðal Landsbankinn, reyndust ófærir um að takast á við þann vanda sem að þeim steðjaði, segir í tilkynningu frá EFTA-dómstólnum.
Nýr banki var stofnaður á grunni þess fallna. Nýi Landsbankinn skyldi yfirtaka skuldbindingar gamla bankans, þar með taldar innstæður fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitið ákvað síðar að skuldbindingar vegna lána frá fjármálafyrirtækjum yrðu ekki fluttar til nýja Landsbankans.
Aresbank stefndi í kjölfarið nýja Landsbankanum, Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu til endurgreiðslu fjármunanna sem hann hafði millifært árið 2008. Aresbank byggði aðalkröfu sína á því mati að fjármunirnir hefðu verið innlán en ekki lán og því átt að vera lausir til útborgunar.
Í dómi sínum 22. desember 2010 komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að millifærslur fjármuna frá Aresbank til Landsbankans yrðu að teljast skammtímamillibankalán, ekki innlán. Þar af leiðandi hafnaði héraðsdómur kröfu Aresbank. Aresbank áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar sem bað um ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum varðandi túlkun á hugtakinu „innstæða“ í tilskipun 94/19/EB.
EFTA-dómstóllinn benti fyrst á að spurningarnar væru tækar til efnismeðferðar jafnvel þótt málareksturinn fyrir landsdómstólnum varðaði ekki beint beitingu EES-réttar. Dómstóllinn áréttaði að almennt væri gengið út frá því fyrirfram að spurningar landsdómstóls varðandi EES rétt ættu erindi til EFTA-dómstólsins. Hann tók einnig fram að þegar reglur landsréttar, sem einungis ættu við um aðstæður innanlands, byggðust á sömu eða svipuðum lausnum og þeim sem beitt væri í EES-rétti í þeim tilgangi að forðast röskun á samkeppni, væri það EES-samstarfinu í hag að koma í veg fyrir ólíka túlkun í framtíðinni. Við túlkun reglna eða hugtaka sem fengin væru úr EES-rétti, bæri því að gæta samræmis í túlkun, óháð þeim aðstæðum sem þau ættu við um, segir í tilkynningu EFTA-dómstólsins.
„Hvað varðar efni málsins, hélt EFTA-dómstóllinn því fram að fé flutt frá einni lánastofnun til annarrar, samkvæmt lánasamningi, skyldi teljast innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Þetta ætti einnig við þótt fjármunirnir væru ekki lagðir inn á sérstakan reikning í nafni bankans sem lánið veitti, engin sérstök skilríki hefðu verið gefin út fyrir móttöku fjármunanna, ekki hefði verið greitt af fjármununum iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjármunirnir hefðu ekki verið færðir sem innstæða í bókum bankans sem fékk lánið.
Engu að síður, í samræmi við 2. gr. tilskipunar 94/19/EB, teldust slíkir fjármunir ekki til innlána sem uppfylltu skilyrði tilskipunarinnar fyrir endurgreiðslu. Þar af leiðandi mætti gera greinarmun á virkri skilgreiningu tryggðra innlána samkvæmt tilskipuninni, sem byggðist á 1. mgr. 1. gr., að teknu tilliti til 2. gr., og tæknilegri skilgreiningu sem tæki til innlána sem ekki féllu undir innlánatryggingakerfi sem kveðið væri á um í tilskipuninni og væru því ekki endurgreiðslukræf samkvæmt þeim. Landsdómstól bæri að leggja mat á það hvor skilgreining innlánahugtaksins ætti við samkvæmt landsrétti.
Landsdómstóllinn spurði einnig hvort sú staðreynd að lánastofnun nýtti ekki heimild sem hún hefði samkvæmt starfsleyfi sínu til að veita móttöku innlánum frá almenningi, en fjármagnaði starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga, þýddi að hún teldist ekki lánastofnun í skilningi 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. EFTA-dómstóllinn svaraði þessu neitandi og taldi það ekki skipta máli nema leyfi stofnunarinnar til að stofna og reka lánastofnun hefði verið afturkallað af lögbærum yfirvöldum,“ segir í tilkynningu.