Á sama tíma og bæði þjóðartekjur og hreinar ráðstöfunartekjur landsmanna eru nánast þær hinar sömu og fyrir tíu árum hefur verg landsframleiðsla aukist um 20%.
Sú staðreynd sýnir að „öll aukning afraksturs efnahagslegra umsvifa á Íslandi síðastliðin tíu ár rennur til útlanda,“ að því er fram kemur í nýju fréttabréfi Júpiter rekstrarfélags og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.
Í fréttabréfinu, sem ber heitið Leiguliðar í eigin landi?, er á það bent að til þess að meta verðmæti íslenskrar framleiðslu sé réttast að horfa til verðmætis landsframleiðslunnar í erlendri mynt. Í árslok 2011 var íslenska hagkerfið um fimmtungi stærra, mælt í erlendri mynt, en það var tíu árum áður. Hins vegar hafa þjóðartekjur, sem sýna hversu mikil verðmæti falla innlendum aðilum í skaut á ári hverju, staðið í stað yfir sama tímabil.
Á fyrstu árum þessarar aldar hélst aukning þjóðartekna, ásamt hreinum ráðstöfunartekjum, í hendur við hagvöxt. Þetta hefur hins vegar breyst á allra síðustu árum. „Bilið sem myndaðist 2008 hefur ekki verið brúað,“ segir í fréttabréfinu.