Lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s staðfesti á föstudaginn lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands. Einkunnin er eftir sem áður Baa3/P-3 fyrir langtíma- og skammtímaskuldbindingar. Í tilkynningu Moody´s segir að staðfesting á lánshæfiseinkuninni endurspegli að íslenska hagkerfið, opinber fjármál og þróun skulda hins opinbera eru talin vera á réttri leið.
Þá býst Moody´s við að efnahagsleg endurreisn haldi áfram á viðunandi hraða þrátt fyrir áhættu vegna afturkipps í hagkerfum Evrópu sem getur haft neikvæð áhrif á útflutning og hamlað vexti. Þá segir í tilkynningu matsfyrirtækisins að opinber fjármál séu á skynsamlegri braut og að verulega hafi dregið úr halla á ríkissjóði. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
Segir þar jafnframt að Moody´s telji enn að áhætta fram á við sé mikil og jafnvel meiri en fyrir önnur lönd með svipað lánshæfismat en stöðugar horfur. Er það meginástæða þess að ekki verður breytt frá því að hafa horfur fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs neikvæðar þrátt fyrir að góður árangur hafi náðst undanfarið.
Moody´s nefnir einnig þrjár sviðsmyndir til sögunnar sem gætu leitt til áfalla sem hefðu mikil áhrif á stöðu landsins. Í fyrsta lagi gæti afnám hafta orsakað mikið útflæði fjármagns og óstöðugleika, en Moody´s nefnir gjaldeyrishöftin sem stærsta einstaka áhættuþáttinn sem steðjar að íslenska þjóðarbúinu um þessar mundir.
Í öðru lagi gæti neikvæð niðurstaða í Icesave málaferlinu haft neikvæðar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Moody´s metur það svo að ef málaferlin fari á besta veg hafi þau í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð sem nemur á bilinu 3,5% af vergri landsframleiðslu eða tæpum 60 milljörðum ef miðað er við áætlaða landsframleiðslu þessa árs. Ef niðurstaðan yrði hinsvegar á á versta veg gæti kostnaðurinn orðið allt að 20% af landsframleiðslu eða sem nemur 335 milljörðum
Í þriðja og síðasta lagi er enn fyrir hendi áhætta vegna bankakerfisins, sem enn er veikburða og viðkvæmt fyrir ytri áföllum að mati Moody´s. Bendir fyrirtækið þar sérstaklega á há vanskilahlutföll.
Moody´s er eina matsfyrirtækið sem er með lánshæfismat ríkissjóðs á neikvæðum horfum, en einkunnir ríkissjóðs eru á stöðugum horfum hjá bæði Standard & Poor´s (S&P) og Fitch Ratings. Hjá Fitch eru einkunnir ríkissjóðs fyrir skuldbindingar í erlendri mynt BBB-/F3 og hjá Standard & Poor´s BBB-/A-3.