Fyrirtækin Siglunes hf og Útgerðarfélagið Nesið ehf. hafa sagt upp öllu starfsfólki sínu frá og með 30. nóvember, samtals 35 manns. Farið verður í endurskipulagningu á fyrirtækinu. Frá þessu er greint á vefnum siglo.is og þar er bréf eiganda birt í heild.
Í því segir:
„Vegna erfiðra rekstrarskilyrða í sjávarútvegi þá er óhjákvæmilegt annað en að segja upp öllu starfsfólki hjá fyrirtækjum okkar frá og með 30. nóvember 2012, samtals 35 manns, og fara í endurskipulagningu á fyrirtækjunum.“
Þá segir einnig í bréfinu að ástæður uppsagnanna séu auknar álögur á fyrirtæki í sjávarútvegi sem er auðlindagjald og sérstakt veiðigjald, einnig óskiljanlegur niðurskurður í ýsukvóta, lækkandi afurðaverð á mörkuðum og nýgerðir kjarasamningar landssambands smábátaeigenda og sjómannasambandsins.
„Það er von okkar að það verði hægt að endurráða sem flesta að þessum aðgerðum loknum,“ segir í bréfinu sem Gunnlaugur Oddsson og Freyr Steinar Gunnlaugsson skrifa undir.