Mögulegt uppbrot evrópska myntbandalagsins hefði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt efnahagslíf og gæti þýtt um 8% samdráttarskeið yfir þriggja ára tímabil.
Atvinnuleysi myndi ennfremur aukast umtalsvert og fjárfesting dragast saman um tæplega 20% en ekki aukast að meðaltali um 11% árlega næstu þrjú árin.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þessi dökka sviðsmynd var teiknuð upp af íslenskum stjórnvöldum fyrr á þessu ári, að því er kemur fram í úrskurði Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í september sl., um samþykkt ríkisaðstoðar sem Landsbankanum var veitt í kjölfar hruns bankakerfisins 2008. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi oft séð ástæðu til þess að minna á að vöxtur og viðgangur íslensks efnahagslífs eigi mikið undir því að evrópskir stefnusmiðir afstýri upplausn á evrusvæðinu þá hefur slík sviðsmynd ekki verið birt opinberlega áður um þær afleiðingar sem uppbrot evrunnar gæti haft fyrir efnahagsþróun hér á landi.