Svo virðist sem Spánn sé fastur í efnahagslægð og atvinnuleysi, samkvæmt nýrri skýrslu Seðlabanka Spánar.
Í ágúst kom kippur í sölu á margvíslegum varningi þar sem virðisaukaskattur var hækkaður þann 1. september. Sú söluaukning hefur nú fjarað út og landið fast í viðjum efnahagskreppu.
Í síðasta mánuði var greint frá því að samdráttur hafi ríkt í spænsku efnahagslífi í meira en eitt ár. Á þriðja ársfjórðungi nam samdrátturinn 0,3% og atvinnuleysi fór yfir 25%. Í ár er útlit fyrir að samdrátturinn verði 1,5% en 0,5% á næsta ári. Efast þó margir um að ríkisstjórnin nái því markmiði sínu.
Spánn er fjórða stærsta hagkerfi evru-svæðisins. Ríkisstjórn landsins hefur gripið til þess ráðs að skera verulega niður í ríkisútgjöldum og hefur niðurskurðinum verið harðlega mótmælt af landsmönnum. Nær niðurskurðurinn meðal annars til heilbrigðiskerfisins og menntamála auk þess sem skattar hafa verið hækkaðir.