Þrír nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands voru fylgjandi vaxtahækkun en tveir voru á móti því að hætta stýrivexti bankans á fundi nefndarinnar fyrir tveimur vikum.
Í fundargerðinni sem var birt síðdegis í gær kemur fram að nefndarmenn ræddu þá möguleika að halda vöxtum bankans óbreyttum eða hækka þá um 0,25 prósentur. Með hliðsjón af umræðunni og mismunandi sjónarmiðum sem fram komu lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur, sem hafa myndi í för með sér að innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) hækkuðu í 5%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 5,75%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga í 6% og daglánavextir í 7%.
„Fjórir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra. Helstu rök fyrir vaxtahækkun voru þau að spáin nú staðfesti að efnahagsbatinn héldi áfram og að slakinn hyrfi fljótlega úr þjóðarbúskapnum. Æskilegt væri að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar, því að ella væri hætta á að peningastefnan brygðist of seint við verðbólguþrýstingi. Verðbólga væri enn yfir markmiði og langtímaverðbólguvæntingar hefðu lítið breyst þrátt fyrir hagfelldari þróun verðbólgunnar að undanförnu. Töldu þeir einnig töluverða hættu á að veikara gengi krónunnar yki launaþrýsting enn frekar í útflutnings- og samkeppnisgreinum og þar með hættu á meiri annarrar umferðar áhrifum á verðbólgu en þegar hafa komið fram.
Einn nefndarmanna sem studdi tillögu bankastjóra hefði þó heldur kosið að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni vegna veikra merkja um aukinn bata á vinnumarkaði sem yki á þá óvissu sem enn væri til staðar um kraft efnahagsbatans.
Einn nefndarmaður greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og vildi halda vöxtum óbreyttum. Taldi hann batann enn viðkvæman þar sem vísbendingar væru um að hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar og bati á vinnumarkaði væri enn hægur. Taldi hann litlar líkur á að mikil innlend eftirspurn orsakaði vaxandi verðbólgu, einkum í ljósi efnahagsástands í helstu viðskiptalöndum. Auk þess taldi hann áhrif hærri vaxta á gengi krónunnar vera óviss við skilyrði gjaldeyrishafta. Að lokum hefði vaxtahækkun neikvæð framboðsáhrif sem kæmu m.a. fram í auknum föstum kostnaði fyrirtækja sem yki þrýsting á vinnumarkaði,“ segir í fundargerð peningastefnunefndarinnar.