Niðurfelling stimpilsgjalds vegna endurfjármögnunar fasteignaveðskuldabréfa og bílalána verður framlengd til loka árs 2013, að því er fram kemur í breytingum við fjárlagafrumvarpið, sem kynnt var á Alþingi í gær.
Ákvæðið var fyrst sett á í október 2008, en var til bráðabirgða og átti að renna út í lok þessa árs. Þetta hefur meðal annars töluverða þýðingu fyrir þá sem huga að endurfjármögnun lána og að breyta úr verðtryggðum yfir í óverðtryggð, eða úr óverðtryggðum yfir í verðtryggð.
Stimpilgjöld á fasteignaveðskuldabréf eru 1,5% og hefðu aðilar því þurft að greiða 300 þúsund krónur vegna 20 milljóna íbúðaláns ef ákveðið var að endurfjármagna það fyrir breytinguna.