Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann lýsir yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins (FME) á athugun sem eftirlitið gerði í kjölfar kæru hans á meðferð skuldamála BM Vallár hf. hjá Arionbanka.
„Miðað við tilkynningu FME er ljóst að hin svokallaða athugun eftirlitsins hefur verið yfirborðskennd og fjarri þeirri rannsókn sem stofnuninni bar að framkvæma.
Þessi vinnubrögð hefðu ekki átt að koma mér á óvart því þau er í fullu samræmi við vinnulag FME á undanförnum árum, sem hefur fremur snúist um að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækjanna en viðskiptavina þeirra.
Í næstu viku mun ég boða til blaðamannafundar og sýna þar áður óbirt gögn, máli mínu til frekari stuðnings. Tilkynning um þann fund verður send út þriðjudaginn 4. desember næstkomandi,“ segir í yfirlýsingu frá Víglundi.