Samkeppni í sölu jólabjóra hefur aukist töluvert milli ára en í ár eru rúmlega 20 jólabjórar til sölu miðað við um 15 í fyrra. Ólafur Þröstur Ólafsson, eigandi Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi hefur staðið í bruggun síðustu 6 árin og segir að farið sé að hægja á söluaukningunni, en hann telur að miklar hækkanir skatta á greinina sé þar um að kenna. Hann segir að ekki líði á löngu þar til um 70% af heildarverði bjórs úr Vínbúðinni renni beint til ríkisins í formi skatta.
Í ár áætlar Ólafur að um 450 til 500 þúsund lítrar af bjór verði bruggaðir hjá Bruggsmiðjunni, en þar er meðal annars Kaldi og Jóla Kaldi framleiddir. Nokkur aukning varð í framleiðslu Jóla Kalda, en Ólafur segir að um 260 þúsund flöskur hafi verið framleiddar fyrir þessi jól, miðað við 210 þúsund í fyrra. Salan er þó svipuð að hans sögn og þar spilar inn í miklar hækkanir á sköttum sem greinin hefur mátt þola og hefur dregið úr söluaukningu.
Hann nefnir sem dæmi að þegar hann hafi opnað verksmiðjuna fyrir rúmum 6 árum hafi áfengisgjaldið verið um 56 krónur á hverja flösku. Eftir áramót þegar 4,6% hækkun kemur til, þá mun þetta verð fara um og yfir 100 krónur fyrir hvern bjór með 5% áfengismagni. „Ríkið gerir okkur ekki auðvelt fyrir á þessum tímum“ segir Ólafur og telur að verðið sé að nálgast sársaukamörk fyrir neytendur. „Það er hálfgert rugl að maður þurfi að kaupa einn bjórkassa á 8 til 9 þúsund úr Vínbúðinni“
Helsta sóknarfæri Bruggsmiðjunnar er í dag á kútamarkaðinum, en Ólafur segir að nú sé hægt að fá bjór á krana á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar skipti miklu máli að bareigendur séu að verða sjálfstæðari frá stóru söluaðilunum, en einnig hafi þrýstingur frá viðskiptavinunum leitt til þess að barir vilji auka við úrvalið hjá sér.
Í fyrra var húsnæði Bruggsmiðjunnar stækkað og framleiðslugeta aukin um þriðjung. Aðspurður hvort farið verið í einhverjar frekari stækkanir á næstunni í kjölfar þess að farið hafi verið í meira mæli í kútasölu segir Ólafur að það sé kominn tími á frekari stækkun, en þau ætli samt enn að halda að sér höndum í þeim efnum og sjá þróun mála á næstunni. Hann segir að staðan sem greinin búi við núna geri mikla uppbyggingu erfiða. „Ég myndi ekki vilja vera að byrja núna, það getur ekki verið þægilegt miðað við hvernig skattlagningin er orðin.“