„Menn þurfa að gera sér grein fyrir því hvað fákeppni kostar neytendur.“ Þetta segir Gylfi Gylfason, eigandi Símabæjar, en hann hefur verið í raftækjabransanum í yfir 20 ár. Hann segir álagningu heildsöluaðila vera úr hófi og þeir nái að skammta minni aðilum álagningu í krafti fákeppni. Af þeim sökum hefur hann á síðustu misserum byrjað að flytja sjálfur inn vörur og nú er svo komið að hann er ekki í viðskiptum við neina heildsölu vegna innfluttrar vöru. Gylfi segir sama eiga við um farsímaviðgerðir hérlendis og af þeim sökum stefnir hann á opnun slíks verkstæðis á næstunni. Hann furðar sig jafnframt á því að Íslendingar hafi ekki nýtt sér frekar alþjóðlega sölumennsku frá Íslandi, en hann segir gjaldaumhverfi hér vera vel samkeppnishæft við Evrópu og að sendingartími sé stuttur.
Gylfi er harðorður í garð stærri aðila á markaðinum, en hann segir að minni söluaðilar eigi ekki möguleika ef þeir þurfi að treysta á stóru heildsölurnar. „Litlir aðilar á borð við mig eiga séns, en við eigum lítinn séns ef við ætlum að festa okkur við taglið á þessum stóru. Við erum skildir útundan og okkur er ýtt út af markaðinum í formi verðstýringar þannig að við komumst aldrei að.“
Þetta hafi opnað augu hans fyrir því að hefja sjálfur innflutning og verða þannig minna háður heildsölunum. Í dag hefur hann náð þeim áfanga að vera algjörlega hættur viðskiptum við þá og segir að þrátt fyrir „dúndrandi álagningu“ fái hann reglulega spurningar um það hvort hann sé að selja eitthvað drasl þar sem verðið, til dæmis á allskonar fylgihlutum fyrir farsíma, sé lægra en gengur og gerist.
„Það er búið að traðka svo mikið á íslenskum neytendum í gegnum tíðina að þeir eru orðnir ringlaðir þegar vara er ekki á uppsprengdu verði,“ segir Gylfi, en að hans sögn ættu neytendur frekar að spyrja stóru aðilana hvað sé í gangi hjá þeim frekar en að spyrja hvernig hann nái þessum verði.
Gylfi segir að eðlilegt sé að við miðum okkur við Evrópu í þessum málum þar sem við séum á jafn dýru svæði, Bandaríkin séu enn mun ódýrari þar sem stórir framleiðendur selji þangað ódýrar, en verðið hér heima ætti að vera í líkingu við Evrópu. Hann segir aftur á móti heildsöluálagningu vera mun hærri hér en úti og þá sérstaklega á jaðarvörum.
Aðspurður hvort ekki sé eðlilegt að slíkar vörur hafi hærri álagningu vegna minni hreyfinga og lengri birgðastöðu segir hann slíka hugsun vera tímaskekkju. Erlendir birgðaaðilar séu flestir komnir á netið þar sem hægt sé að sjá nákvæma birgðastöðu og panta í stykkjatali vörur sem komi eftir 2 til 3 daga í hús. Heildsölur þurfi því ekki að sitja uppi með stóran lager af vörum sem seljast lítið, heldur panta þær bara reglulega inn í litlum skömmtum meðfram þeim vörum sem seljast hraðar.
Eftir að Gylfi ákvað að færa sig í sjálfstæðan innflutning hefur hann einnig farið að selja áfram til annarra verslana. Hann segir að það komi vel til greina að opna eigin heildsölu með auknu vöruúrvali og það sé á dagskrá hjá sér. Hann horfir þó ekki síður til farsímaviðgerða, þar sem mjög mikill möguleiki sé á að komast inn á markaðinn. Segir hann verðlagningu þar, jafnt og í raftækjageiranum, vera upp úr öllu valdi og að bið eftir viðgerðum sé of löng.
Gjalda- og skattaumhverfi hérlendis hefur oft komið til tals þegar rætt er um vöruverð hérlendis. Gylfi þvertekur fyrir að umhverfið hér sé hamlandi fyrir viðskiptin. „Þetta er bara atvinnuskæl og ég finn það ekki í mínum rekstri að vörugjöld eða aðflutningsgjöld séu íþyngjandi á raftækjasviðinu.“ Hann segir engin gjöld á farsíma eða hleðslutæki, en um 10% vörugjöld á flestallt annað sem hann hafi til sölu. Nefnir að engin gjöld séu á tölvur og tölvufylgihluti. Aðeins þurfi að greiða virðisaukaskattinn. „Við erum með samskonar grind og í Evrópu og fáum því ekki hærra verð til okkar frá Kína heldur en sá sem keppir við okkur og býr í Danmörku,“ segir Gylfi.
Hann tekur þó fram að þessi skoðun hans eigi við um raftækjamarkaðinn, en annað eigi til dæmis við um matvörumarkaðinn, sem hann segir búa við mjög þunglamalegt gjaldaumhverfi.
Gylfi hefur einnig fundið aðrar leiðir til peningasköpunar og stundar til að mynda útflutning á raftækjum. Hann segist undrandi á að fáir hafi nýtt sér þetta tækifæri. „Alþjóðleg sölumennska frá Íslandi er algjörlega vannýtt þrátt fyrir að við búum við mjög gott gjaldaumhverfi, mjög góðar póstsamgöngur og stuttan sendingartíma.“ Hann segist alltaf hafa setið uppi með einstakar tegundir raftækja og laskaðar vörur. Hann ákvað því að prufa að selja þetta úr landi til fyrirtækja sem leita að varahlutum eða til endursölu.
Í dag er hann búinn að selja yfir 5 þúsund ónýta farsíma úr landi auk annarra raftækja. Þessi tilraunastarfsemi hans hefur leitt af sér eBay-sölunámskeið þar sem hann hefur kennt yfir 200 Íslendingum að byggja upp vefsölu.