Lántökukostnaður spænska ríkisins lækkaði í morgun í skuldabréfaútboði sem fór fram einungis nokkrum klukkutímum eftir að leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu að koma á sameiginlegu fjármálaeftirliti.
Uppboðið á skuldabréfum til þriggja og fimm ára skilaði rúmum tveimur milljörðum evra í ríkissjóð sem þýðir að ríkisstjórn Spánar fær aukið olnbogarými til þess að komast hjá því að þurfa að leita á náðir björgunarsjóðs ESB.
Ávöxtunarkrafan á skuldabréf til þriggja ára er 3,358% en var 3,39% í útboði sem fram fór þann 5. desember. Eins lækkaði ávöxtunarkrafan á fimm ára bréf úr 4,477% í 4,2%.