„Gjaldeyrishöftin eru ákveðið krabbamein í atvinnulífinu,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Allt nýtt sem sé að gerast í utanríkisviðskiptum byggist upp erlendis. Þeir sem komi með peninga heim í gegnum fjárfestingaleið fái svo forskot og geti boðið í eignir á hærra verði en aðrir.
„Með höftunum leita allir peningar sem geta farið út úr landinu út. Allt nýtt sem er að gerast í sambandi við útflutning eða innflutning byggist upp erlendis,“ segir Vilhjálmur.
„Seðlabankinn er að reyna að fá peninga inn í landið í gegnum útboð eða fjárfestingaleiðir. Það er allt gott og blessað; peningarnir koma inn í landið, en á móti er greinilega eitthvað að gerast erlendis. Það er ekki gott að segja hvað það er, en í langflestum tilvikum er það allt löglegt.“
Vilhjálmur nefndir sem dæmi að fyrirtæki sem eru í útflutningi og eiga hugverkaréttindi safna fjármunum í dótturfélögum erlendis. Fyrirtækin þurfi ekki að koma með fjármunina heim og geri það ekki.
„Þeir sem koma með peninga inn í landið í gegn um fjárfestingaleið geta boðið hærra verð í eignir en aðrir sem eingöngu starfa hér innan lands. Þeir fá því sérkjör en aðrir þurfa að borga fullu verði. Það myndast skekkja sem verður alvarlegri eftir því sem þessu kerfi er lengur viðhaldið.“
Vilhjálmur segir að höftin séu yfirlýsing stjórnvalda um að krónan sé ekki í lagi. „Vextir hér innanlands eru hærri en erlendis og þeir sem eiga þessar kröfur eru að fitna á innlendum vöxtum. Vandinn er því að stækka, en ekki að minnka. Okkur lýst þannig á þetta að það sé bara verið að hlaða upp í eina stóra sprengju. Menn tala um snjóhengju og þrotabú, en það er eins og það sé enginn að gera neitt í málinu,“ segir Vilhjálmur.