Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur hækkað lánshæfiseinkunn Grikklands um sex stig og er hún nú B- með stöðugum horfum. Fyrirtækið hrósar öðrum Evrópuríkjum fyrir að hafa sýnt mikla staðfestu í því að aðstoða Grikki við að halda sér á evrusvæðinu.
S&P hrósar grískum stjórnvöldum jafnframt fyrir að hafa gripið til aðgerða til að draga úr opinberum útgjöldum.
Í síðustu viku hófu Grikkir að fá síðari hluta neyðarlánsins sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa samþykkt að veita grískum stjórnvöldum vegna þeirra aðhaldsaðgerða sem þau hafa gripið til. Um er að ræða 49,1 milljarð evra.
Samtals hafa 240 milljarðar evra verið eyrnamerktir Grikkjum í tveimur neyðarlánum.