Íslendingar hafa á síðustu þremur árum eytt umfram efni og í flestum mánuðum duga tekjur ekki fyrir útgjöldum. Þetta kemur fram þegar tölur frá Meniga um heildarútgjöld og neyslu eru skoðaðar. Niðurstaðan sýnir aukna skuldasöfnun þrátt fyrir að á tímabilinu hafi ríkissjóður fjórum sinnum verið með vaxtaniðurgreiðslu, fólk hafi tekið út tugi milljarða úr séreignarsparnaði og bankarnir hafi lækkað skuldir eða greitt fólki til baka hluta vaxtagreiðslna. Á sama tíma hafa yfirdráttaskuldir og óverðtryggð skuldabréfalán heimilanna sem ekki eru íbúðalán hækkað nokkuð.
Meðalhalli einstaklings í hverjum mánuði er samkvæmt þessum tölum 1,9%, en það er töluvert önnur niðurstaða en Hagstofan kemst að í Hagtíðindum þann 6. desember síðastliðinn þar sem afgangur heimilanna er 14% á mánuði á árunum 2009 til 2011. Í tölum Meniga er tímabilið 2010 til 2012 skoðað, en meðalhalli var mestur árið 2010 og hefur farið lækkandi síðan.
Mikill munur er á útkomu einstakra mánaða og fer það meðal annars eftir því hvort barna- og vaxtabætur séu greiddar út, auk þess sem vaxtaniðurgreiðsla ríkissjóðs hefur áhrif. September er sá mánuður sem er fólki erfiðastur en á síðustu 3 árum hefur hann samtals verið neikvæður fyrir hvern og einn um 110 þúsund krónur, eða um 33 þúsund á mánuði. Ágúst er aftur á móti jákvæðastur, en þá er afgangurinn á mánuði verið um 24 þúsund krónur. Þrátt fyrir mestu útgjöldin í desember er sá mánuður aðeins í 18 þúsund króna mínus á hverju ári, en það má skýra með hærri tekjum, til að mynda jólabónusum.
Vaxtaniðurgreiðslur ríkissjóðs og endurgreiðsla vaxta hjá bönkunum virðast skipta töluverðu máli í afkomutölum einstaklinga. Aðeins einn mánuður, þar sem barna- og vaxtabætur eru ekki greiddar út, né fyrrnefndar endurgreiðslur eiga sér stað, hefur komið jákvætt út á tímabilinu. Það var janúar 2012, en þá var afgangur upp á rúmlega 24 þúsund krónur.
Frá janúar 2010 til nóvember 2012 hafa útborgaðar tekjur einstaklinga hækkað um 18% samkvæmt tölum Meniga. Á sama tíma hafa greiðslur af húsnæðislánum að meðaltali hækkað um 13%, meðal matarinnkaup aukist um 43% og eldsneytiskaup hækkað um 35%. Tölurnar segja þó ekki endilega til um verðhækkanir á tímabilinu, heldur sýna fram á útgjaldaaukningu einstaklinga.
Á þessu tímabili hafa yfirdráttarskuldir heimilanna hækkað nokkuð, en samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands hækkuðu þær úr tæplega 70 milljörðum í 88 milljarða. Þegar hækkun yfirdráttaskulda vegna sameiningar Kreditkorta og Íslandsbanka fyrr á árinu er tekin frá, nemur aukningin engu að síður 17,1%. Hækkun óverðtryggðra útlána, annarra en íbúðalána hefur einnig verið mikil, en þau hafa farið upp um 468% á tímabilinu, eða um 73 milljarða.
Íslendingar virðast því eyða nokkru meiru en þeir þéna, en auk þess hafa ýmsar skammtímaskuldir aukist töluvert. Ekki hefur verið tekið nein ákvörðun um framlengingu á vaxtaniðurgreiðslu ríkissjóðs, en hún var aðeins sett inn fyrir 2011 til 2012. Þá hefur tímabundinni lækkun skerðingamarka vaxtabóta verið framlengt um eitt ár, en fólk getur í dag átt minni eignir áður en vaxtabætur eru skertar en var árið 2010.
Á bakvið tölur Meniga er innkoma og útgjöld um 30 þúsund Íslendinga, en fólk getur tengt reikninga og greiðslukort við kerfið og fylgst þannig með fjárhag sínum. Upplýsingarnar eru algjörlega ópersónugreinanlegar.