Slitastjórn Landsbanka Íslands krefur PriceWaterhouse Coopers um tæplega 100 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem hún telur fyrirtækið hafa valdið Landsbankanum fyrir hrun. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þar segir að fréttastofa RÚV hafi stefnu slitastjórnar bankans gegn PriceWaterhouseCoopers undir höndum. Fram kemur að stjórnin telji að endurskoðendur bankans hafi valdið tjóni með athöfnum sínum, athafnaleysi og rangri ráðgjöf.
Þá segir að félagið hafi ekki endurskoðað reikninga bankans í samræmi við reglur og ekki tilkynnt alvarleg brot bankans til bankaráðs, hluthafafundar og Fjármálaeftirlitsins eins og því hafi borið að gera.
Jafnframt kemur fram að PriceWaterhouseCoopers hafi ekki getið um stórfelldar lánveitingar bankans til Björgólfs Thors Björgólfssonar eða félaga sem tengdust honum í ársreikningum 2007 og 2008 og aðeins getið um hluta af skuldbindingum Björgólfs Guðmundssonar, bankaráðsformanns og annars aðaleiganda bankans.