Í tilefni kvörtunar hefur Neytendastofa bannað Bauhaus að birta fullyrðingar um besta verðið sem byggjast á því að félagið bjóði verðvernd. Fyrirtæki verða að geta sannað fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum þeirra og Neytendastofa taldi ekki fullnægjandi að vísa til verðverndar til sönnunar á fullyrðingu um besta verðið.
Í sömu ákvörðun er fjallað um ýmis skilyrði verðverndar Bauhaus. Neytendastofa gerði ekki athugasemdir við að samkvæmt skilmálum yrði að bera saman sömu vöru sem fengist ódýrari hjá keppinautum. Stofnunin gerði heldur ekki athugasemdir við þá takmörkun að verðverndin gildi ekki um vörur sem aðrir bjóði í takmörkuðu magni og í takmarkaðan tíma.
Aftur á móti taldi Neytendastofa það stangast á við lög og reglur að Bauhaus geri kröfu um að til þess að nýta sér verðvernd verði neytendur að leggja fram sönnun fyrir lægra verði keppinauta skriflega, á pappír. Ef neytandi nýtir sér verðvernd félagsins ætti að vera fullnægjandi að hann afhendi Bauhaus gögn, á einhverjum af þeim fjölda varanlegra miðla sem auðvelt aðgengi er að með hjálp nútímatækni. Telji Bauhaus gögnin ekki sýna rétt verð hvílir sönnunarbyrði um það á Bauhaus.
Ef fyrirtæki ætlar að bjóða verðvernd, þá þarf það að kanna reglulega verð hjá keppinautum sínum og lækka verð sitt sé þörf á því. Vegna þessarar skyldu telur Neytendastofa Bauhaus ekki geta gert kröfu um skriflega staðfestingu á pappír frá neytendum.