Samherji með hærra einingaverð

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Einingaverð Samherja fyrir útfluttar botnfiskafurðir á árunum 2007-2012 var að jafnaði hærra en annarra útflytjenda, samkvæmt rannsókn IFS Ráðgjafar. Stjórnendur Samherja segja þessar niðurstöðu hnekkja þeirri fullyrðingu Seðlabanka Íslands um að fyrirtækið hafi flutt út fisk á undirverði.

Í mars fékk Seðlabanki Íslands húsleitarheimild hjá Samherja vegna gruns um brot gegn ákvæðum laga um gjaldeyrismál, eins og kemur fram í yfirlýsingu frá bankanum.

Samherji segir að rannsóknin hafi verið byggð á röngum útreikningum á útflutningsverði karfa. Héraðsdómur og Hæstiréttur hafi raunar staðfest að útreikningarnir væru rangir.

Í bréfi sem Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson sendu starfsmönnum sínum í dag segir að nú séu liðnir 9 mánuðir frá því að húsleitin var gerð en fullyrt var í upphafi af hálfu Seðlabankans að rannsóknin myndi taka stuttan tíma.

„Á þessu tímabili hefur einungis ein fyrirspurn komið frá Seðlabanka Íslands varðandi útflutning á fiski. Spurt var um bleikjuútflutning til Þýskalands en á 44 mánaða tímabili hafa einungis verið flutt út 11 tonn af bleikju til tengdra aðila!“ segir í bréfinu.

Þorsteinn og Kristján segjast hafa ítrekað boðið Seðlabanka Íslands um aðstoð við greiningu gagna til að flýta fyrir rannsókninni. Þeir segja að Seðlabanki Íslands hafi ítrekað haldið því fram fyrir rétti að hann hafi fundið gögn sem sýni að verðlagning Samherja til tengdra aðila, meðal annars á þorski, sé undir markaðsverðum og brjóti þannig gegn lögum.

5,9% hærra einingaverð hjá Samherja

Samherji óskaði því eftir því að IFS Ráðgjöf (þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði fjármála og greininga) greindi allan fiskútflutning Íslendinga frá 2007 til og með ágúst 2012.

Í bréfi IFS Ráðgjafar segir að rannsókn þeirra sé byggð á tollskýrslum Hagstofu Íslands. Gögnin byggjast á 205.615 sendingum, þar af 10.692 frá Samherja. Við athugina var unnið eftir tollflokkum og tegundum, sem telja um 95% af heildarútflutningsverðmæti Samherja, kannaðar.

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að einingaverð Samherja fyrir botnfisktegundir reyndist vera að jafnaði 5,9% hærra miðað við krónur og 6,7% miðað við áætluð einingaverð í evrum.

Fyrir tollflokka þorsks var einingaverð Samherja 6,7% hærra en annarra í krónum talið og 7,5% í evrum. Í samanburði ýsuflokka voru einingaverð Samherja áþekk einingaverðum annarra. Þar reyndist Samherji vera með 1,9% lægra í krónum talið en 1,1% hærra miðað við áætluð einingaverð í evrum.

Hnekkir fullyrðingum Seðlabankans

„Greining IFS Ráðgjafar á útflutningsverði íslenskra sjávarafurða síðustu ár, hnekkir þeirri fullyrðingu Seðlabanka Íslands að hann hafi komist yfir gögn sem sýni að Samherji hafi selt aðrar tegundir en karfa á undirverði. Hún er röng – eins og fullyrðing bankans um karfaverðið,“ segir í bréfi Þorsteins og Kristjáns til starfsmanna Samherja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK