Á stærsta fjárhættuspilasvæði heims, í Makaó í Kína, jukust tekjur vegna fjárhættuspila um 13,5% á liðnu ári. Voru heildartekjur í þessu minnsta héraði Kína 38 milljarðar Bandaríkjadollara, eða sem nemur um 5000 milljarðar íslenskra króna.
Aðeins búa 550 þúsund manns í borginni, en hún er gömul portúgölsk nýlenda sem komst í hendur Kínverja 1999. Fjárhættuspil eru ein af aðalgrunnstoðum hagkerfisins í borginni, en hún er eini staðurinn þar sem þau eru lögleg í Kína.
Þrátt fyrir mikla aukningu þá er hægðist á í þessum geira ef miðað er við árið á undan þegar tekjur jukust um 42%. Greiningaraðilar segja samt sem áður að þessar tölur sýni að aftur sé farið að birta til í efnahag Kína, en margir af efnaðri íbúum landsins sækja spilavíti borgarinnar heim.
Eftir að erlendum spilavítum var hleypt inn í borgina árið 2002 hefur hún vaxið mikið og hefur meðal annars tekið fram úr Las Vegas sem stærsta spilavítisborg heims og er nú svo að fjárhættuspil og ferðamannaiðnaður er það sem skilar mestu í ríkiskassann þar í borg.