Dale Vince var húsnæðislaus í 10 ár og bjó þá í húsbíl á Bretlandi. Í dag á hann orkufyrirtæki sem metið er á um 20 milljarða króna.
Vince hefur ekki farið hefðbundna leið í gegnum lífið. Hann hætti snemma í skóla og flutti að heiman. Hann eignaðist gamlan húsbíl sem hann bjó í um 10 ár.
Vince sagði í samtali við BBC að sér hefði að mörgu leyti líkað vel að búa í bílnum og raunar hefði það tekið sig talsverðan tíma að venjast því að búa í húsi eftir að hann eignaðist heimili á ný.
Eftir að Vince hafði búið í húsbíl í nokkur ár fékk hann sér litla vindrafstöð sem hann festi á bílinn. Í kjölfarið vaknaði áhugi hans á vindmyllum. Hann las allt sem hann komst yfir um vindorku og nýtingu hennar. Þetta varð til þess að hann ákvað árið 1991 að stofna fyrirtæki sem einbeitti sér að því að nýta vindorku.
Vince viðurkennir að það hafi tekið nokkurn tíma að sannfæra þá sem hann átti í viðskiptum við að hann væri rétti aðilinn til að fara í samstarf við. Hann segist ekki hafa mætt á fundi í jakkafötum með bindi, en þegar menn gáfu sér tíma til að hlusta á það sem hann hafði fram að færa hafi hjólin fljótlega farið að snúast.
Tveimur árum eftir að Vince stofnaði fyrirtækið Ecotricity ákvað hann að flytja úr húsbílnum í íbúð. Fyrirtækið óx ár frá ári. Í dag selur Ecotricity græna orku til um 50 þúsund viðskiptavina og þeim fjölgar um 1.500 í hverjum mánuði.
Ecotricity rekur í dag 54 vindrafstöðvar. Fyrirtækið hefur einnig snúið sér að því að framleiða gas úr matarafgöngum og úrgangi frá landbúnaði. Það er í dag með um 8.000 viðskiptavini sem kaupa gas. Vince er sannfærður um að miklir möguleikar séu á þessu sviði og stefnir að því að tvöfalda framleiðsluna á næstu 12 mánuðum. Hann vonast eftir að verða kominn með um eina milljón viðskiptavini innan 10 ára.
Árið 2010 fór Ecotricity í skuldabréfaútboð og setti á markað svokölluð „vistvæn skuldabréf“. Útboðið gekk afar vel og eftirspurn eftir bréfunum var tvöfalt meiri en fyrirtækið hafði þörf fyrir. Það seldi skuldabréf fyrir 10 milljónir punda, en einn viðskiptavinur keypti helming bréfanna.
Það eru þó blikur á lofti varðandi áform Ecotricity um nýjar fjárfestingar. Vöxt fyrirtækisins má að stórum hluta þakka að ríkisstjórn Bretlands tók ákvörðun um að niðurgreiða orku sem framleidd er með sjálfbærum hætti. Óljóst er hvort þessar niðurgreiðslur verða óbreyttar um alla framtíð. Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að draga úr niðurgreiðslum vegna rafmagns sem framleitt er með sólarrafhlöðum.
Vince hefur þegar fjárfest fyrir 2,5 milljónir punda í sólarorkuverum og hafði uppi áform um stórtæka fjárfestingu á því sviði. Stjórnvöld hafa lýst efasemdum um að rétt sé að fara út í byggingu á risastórum sólarorkuverum, en Vince segir að stór sólarorkuver framleiði orku á 50% lægra verði en lítil sólarorkuver.
Velgegni Ecotricity hefur vakið áhuga fjárfesta á fyrirtækinu. Vince segist hins vegar ekki vera að íhuga að selja fyrirtækið. Fyrirtækið er metið á 100 milljónir punda. „Ef ég fengi í hendurnar 100 milljónir punda myndi ég fara og setja á stofn fyrirtæki sem framleiddi græna orku, svo hvers vegna ætti ég að selja?“ sagði Vince í samtali við Independent.