Atvinnuleysi á evrusvæðinu í nóvember var 11,8% og hefur aldrei mælst meira. Atvinnuleysi meðal ungs fólks mældist 24,4%.
Þetta kemur fram í tölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birti í dag. Atvinnuleysi á evrusvæðinu jókst um 1 prósentustig frá október. Samkvæmt tölunum hefur atvinnuleysi í Evrópusambandinu öllu ekkert breyst, en það er 10,7%.
Atvinnuleysið er mest á Spáni 26,9%. Þar á eftir kemur Grikkland með 20% atvinnuleysi. Minnsta atvinnuleysið er í Austurríki 4,5%. Mest dró úr atvinnuleysi í nóvember í Eistlandi eða úr 12,1% í 9,5%, en Eistland er nýjasta landið sem tók um evru. Um 26 milljónir manna eru án vinnu í ESB, þar af 18,8 milljónir á evrusvæðinu.
24,4% ungs fólks á evrusvæðinu eru án vinnu, en hlutfallið er 23,7% í Evrópusambandinu öllu.
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði eftir að tölurnar voru birtar að hann teldi að það versta væri yfirstaðið og atvinnuleysi innan ESB myndi fara minnkandi.