Skuldatryggingarálag á Ísland og Írland er nú svipað, en þróun þess hefur verið býsna ólík hjá löndunum tveimur undanfarin ár og endurspeglar mismunandi viðbrögð við kreppunni og ólíkar aðstæður að sumu leyti. Greiningardeild Íslandsbanka fór í morgunkorni sínu yfir ástandið í löndunum tveimur, en uppgangur Íslands hefur meðal annars verið hraðari meðan við búum við fjármagnshöftin, en Írar njóta hins vegar stöðugs gengis og lágrar verðbólgu.
Segir í greiningunni að skuldatryggingarálagið til 5 ára sé 173 punktar á Ísland en 197 punktar á Írland. Álagið á bæði löndin hefur hins vegar slegið yfir 1.000 punkta á síðustu árum.
Álagið hér á landi fór yfir 1.000 punkta í októberbyrjun 2008, en 1.000 punkta álag jafngildir því að greiða þurfi 10% af höfuðstól skuldabréfs árlega fyrir að tryggja það gegn greiðslufalli. Álagið fór hins vegar að lækka í kjölfar þess að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda var hleypt af stokkunum.
Saga Írlands er nokkuð önnur að sögn greiningardeildarinnar. Er það meðal annars vegna þess að stjórnvöld ákváðu að bjarga bönkunum og þar sem Írar höfðu ekki sjálfstæðan gjaldeyri sem aðstoðaði við að auka samkeppnishæfni.
Skuldir ríkissjóðs Írlands fóru við björgun bankanna úr 25% af vergri landsframleiðslu árið 2007 í nærri 120% um síðustu áramót. Þriðjungur þessara skulda er til kominn vegna björgunar ríkisins á írsku bönkunum. Þá gátu Írar ekki reitt sig á fall fljótandi gjaldmiðils til þess að auka samkeppnishæfi landsins og beina eftirspurn inn á við. Álag Írlands fór því hækkandi á sama tíma og álagið á Ísland lækkaði, og fór það yfir 1.000 punkta í júlí 2011, rúmlega tveimur árum eftir að álagið á Ísland náði síðast slíkri tölu. Írland leitaði á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í árslok 2010, tveimur árum á eftir Íslandi.
Aðstæður hafa þó batnað nokkuð á Írlandi að undanförnu. Efnahagsáætlun sjóðsins og írskra stjórnvalda hefur í megindráttum gengið að óskum, og er fyrirhugað að hún renni sitt skeið í lok þessa árs. Hægur vöxtur tók við af samdrætti árið 2011 og hefur ríkt síðan. Samfara þessu hefur skuldatryggingarálag á írska ríkið lækkað allhratt, sér í lagi eftir að ríkið sótti á ný fé á markaði með útgáfu skuldabréfs í júlí síðastliðnum.
Greiningardeildin segir að fróðlegt verði að fylgjast með þróun efnahags og skuldatryggingarálags í löndunum á næstunni. Þróunin á Íslandi er um margt dæmigerð fyrir land þar sem kostir fljótandi gjaldmiðils eru nýttir til þess að hraða aðlögun efnahagslífsins. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að verðbólga hefur verið umtalsverð og landið situr enn í viðjum gjaldeyrishafta sem ekki er útséð um hvenær eða jafnvel hvort verði aflétt í fyrirsjáanlegri framtíð.
Írar hafa hins vegar þurft að fara seinfarnari og um margt erfiðari leið að því marki að koma á jafnvægi í hagkerfi sínu og ríkisfjármálum. Þeir státa á hinn bóginn af lítilli verðbólgu, stöðugleika í gengi gagnvart flestum viðskiptalanda sinna og óheftu flæði fjármagns til og frá landinu. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort leiðin var á endanum farsælli, sú íslenska eða hin írska.