Ullarvinnslufyrirtækið Ístex hf. skilaði 77 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 60 milljónir árið 2011. Góður árangur náðist á erlendum mörkuðum, en einnig var vöxtur á innanlandsmarkaði, þó mun minni.
Á vef sauðfjárbænda kemur fram að tekjur félagsins í heild jukust um rúm 10% milli ára. Skuldir lækkuðu jafnframt um 74 milljónir króna, bæði vegna niðurgreiðslu í ljósi góðrar afkomu og leiðréttinga lána. Heildarskuldir hafa lækkað um nær 180 milljónir króna á síðustu árum.
Samþykkt var á fundinum að greiða 20% arð á hlutafé eins og sl. tvö ár. Arðgreiðslan miðast við heildarhlutafé og nemur 11,9 milljónum í heild. Landssamtök sauðfjárbænda eiga 15,5% hlut í Ístex.