Talsverðar líkur eru taldar á því að íslensku viðskiptabönkunum muni takast á þessu ári – jafnvel strax á fyrri hluta ársins – að sækja sér fjármagn í gegnum erlenda skuldabréfaútgáfu.
Slík erlend fjármögnun, sem yrði sú fyrsta frá falli fjármálakerfisins haustið 2008, yrði þó að öllum líkindum ekki mikil til byrja með, jafnvel undir hundrað milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 12 milljarða króna.
„Við teljum fyrst og fremst mikilvægt að komast af stað,“ útskýrir Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka, í samtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, en hann telur að það verði „klárlega“ einhver útgáfa á þessu ári. „Þótt bankinn hafi í sjálfu sér ekki mikla þörf fyrir erlenda fjármögnun á þessari stundu viljum við ekki lenda í þeirri stöðu að fara í gang fyrst þegar við þurfum virkilega á henni að halda.“