Fyrrum forsætisráðherra Finnlands, Esko Aho, verður aðalræðumaður á Viðskiptaþingi 2013 sem fram fer 13. febrúar næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica, en þar verður meðal annars rætt um fyrirliggjandi framleiðnivanda hagkerfisins og mögulegar úrbætur þar á. Esko hefur áratuga langa reynslu af stjórnunarstörfum og er í dag fræðimaður hjá Kennedy School of Government í Harvard og stjórnunarráðgjafi hjá Nokia.
Í erindi sínu mun Esko ræða þá þætti sem mikilvægir eru fyrir vöxt hagkerfa og þar með lífskjara. Hann mun snerta á lærdómum Finna frá Norðurlandakreppunni ásamt því að fara yfir mikilvægi nýsköpunar fyrir lönd af stærðargráðu Íslands. Honum er einnig hugleikið mikilvægi samstarfs til að tryggja efnahagsstöðuleika og við úrlausn vandamála. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptaráði sem stendur fyrir þinginu, en formenn allra stjórnmálaflokkanna munu meðal annars ræða um tillögur viðskiptaráðs að aukinni hagkvæmni hér á landi.
Þá verða styrkir vegna framhaldsnáms erlendis einnig veittir við sama tilefni, en Viðskiptaráð Íslands hefur um árabil veitt slíka styrki. Líkt og undanfarin ár verða veittir fjórir styrkir að fjárhæð krónur 400 þúsund. Umsóknarfrestur fyrir námsstyrki Viðskiptaráðs 2013 rennur út klukkan 16.00 föstudaginn 25. janúar, en allar nánari upplýsingar má finna á vef Viðskiptaráðs.