Verðbólgan á evrusvæðinu mældist 2,2% í desember miðað við samræmda vísitölu neysluverðs og var hún óbreytt frá fyrri mánuði.
Verðbólgan mældist aðeins meiri sé tekið mið af öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins (EES), eða sem nemur um 2,3%. Í desember 2011 mældist verðbólgan á evrusvæðinu 2,7% en 3,0% sé miðað við EES, og hefur því talsvert dregið úr verðbólgu í þessum nágrannalöndum okkar, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Verðbólgan á evrusvæðinu er þó enn lítillega yfir 2% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu en verðbólgan hefur verið yfir því marki allt frá því í desember árið 2010.
Miðað við samræmdu vísitölu neysluverðs mældist verðbólgan 5,1% hér á landi í desember sl. Lækkaði hún mikið frá fyrri mánuði þar sem hún hafði mælst 6% í nóvember, samkvæmt Morgunkorni greiningar.
„Í raun dró talsvert meira úr verðbólgu hér á landi en í löndum í kringum okkur. Þó trónir Ísland enn á toppnum með mestu verðbólguna af ríkjum EES í desember, en sætinu er að þessu sinni deilt með Ungverjalandi. Þar hefur raunar verulega dregið úr verðbólgu að undanförnu líkt og hér á landi.
Af löndum EES mældist verðbólgan minnst á Grikklandi (0,3%) en næstminnst var hún í nágrannalöndum okkar Svíþjóð (1,1%) og Noregi (1,1%). Sé Sviss, sem ekki er innan EES, hér meðtalið í samanburðinum var verðbólgan minnst þar en þar ríkir áfram verðhjöðnun. Þar mældist tólf mánaða taktur vísitölunnar neikvæður um 0,2% í desember og var það fimmtándi mánuðurinn í röð sem slíkt er uppi á teningnum í þar í landi,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.