Ásókn í framhalds- og háskólanám á sviðum raunvísinda og tækni hefur hlutfallslega dregist saman hérlendis, þrátt fyrir að ásókn hafi almennt aukist í framhaldsnám. Þrátt fyrir áhuga nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á iðn- og verknámi, þá velja flestir sér að fara í bóklegt nám.
Nú þegar er skortur á raunvísinda- og tæknimenntuðu fólki þrátt fyrir atvinnuleysi og spár í Evrópu og Norðurlöndunum. Haldi sama þróun áfram getur það haft í för með sér að fyrirtæki hætti að sækjast eftir að stækka í viðkomandi landi og flytji erlendis. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni Staða íslenskra nemenda og framtíðarþörf samfélagsins, sem Elsa Eiríksdóttir vann í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Einstaklingum sem velja raunvísinda- og tæknimenntun þarf að fjölga um 82% næstu árin, eða úr 1100 í 2000 manns, til að mæta þörf íslensks atvinnulífs segir í skýrslunni. Sterkar vísbendingar eru um að alvarlegt misgengi verði á vinnumarkaðinum ef ekki verður brugðist hratt við og gripið til viðeigandi aðgerða.
Þegar Ísland er borið saman við önnur lönd kemur í ljós að á Íslandi er lægra hlutfall fólks sem útskrifast með háskólapróf í raunvísindum og tækni en í Evrópu að meðaltali. Hlutfallið hérlendis er 15% á móti 21% í Evrópu. Samt sem áður er einnig rætt um skort þar og of fáa nemendur í þessum geira.
Í aðgerðaráætlun sem sett hefur verið saman er lagt til að auka samráð hagsmunaaðila og stjórnvalda og auka rannsóknir á þessum vettvangi. Einnig sé nauðsynlegt að auka áhuga nemenda á þessu námi, til dæmis með nýstárlegu kynningarefni, bæta hæfni kennara og bjóða aukin símenntunartækifæri. Þá skipti fjölbreyttari kennsluhættir og tengsl við atvinnulífið einnig miklu máli og er jafningjafræðsla nefnd í því samhengi.