Talið er að svokölluð skattafælni fyrirtækja kosti þróunarríkin 70 milljarða Bandaríkjadala árlega, samkvæmt mati samstarfshóps rúmlega eitt hundrað frjálsra félagasamtaka í Bretlandi, sem vilja uppræta undanskotin og útrýma þannig hungri í heiminum.
Hægt væri að bjarga lífi 85 þúsund barna
Að mati samstarfshópsins, sem hefur lagt upp í herferð til að kynna aðgerðirnar, væri unnt að bjarga lífi 85 þúsunda barna yngri en fimm ára í fátækustu ríkjum heims ef skattar væru að fullu greiddir, samkvæmt því sem fram kemur í vefriti um þróunarmál.
Herferðinni - Enough Food for Everyone IF - er hleypt af stokkunum í Bretlandi daginn eftir að David Cameron forsætisráðherra Breta lýsir yfir því í ræðu að skattafælni yrði eitt af forgangsmálum Breta nú þegar þeir tækju við forystuhlutverki í G8-ríkjahópnum.
Breski leikarinn Bill Nighy er áberandi í herferðinni í Bretlandi og hann sagði í viðtali við The Independent síðastliðinn sunnudag að fjárhæðin, sem þróunarríkin sjái á eftir inn í skattaskjól, sé þrisvar sinnum hærri en þróunarfé frá veitendum þróunaraðstoðar.