„Það er bara samkeppni af netinu sem gerir þennan rekstur eiginlega alveg vonlausan. Þó að við höfum stritað við að reyna að vera með efni sem er ekki aðgengilegt annars staðar á landinu, mikið af norrænu efni, bresku, ítölsku og frönsku. En markaðurinn hér á landi er bara of lítill til þess að halda þessu gangandi,“ segir Ragnar Snorrason, eigandi Grensásvideo í Reykjavík en fyrirtækinu verður lokað innan skamms. Hann vísar þar bæði til aukins framboðs sjónvarpsefnis á netinu, meðal annars hjá símafyrirtækjunum, sem og ólöglegs niðurhals.
Þannig sé aðsóknin í nýjar kvikmyndir nánast horfin. „Það kemur varla maður og spyr um nýja mynd. Það er ekkert langt síðan maður þurfti að eiga nokkur eintök af nýjum myndum. Þessi bransi er bara dáinn, það er ekkert flóknara en það. Það væri allt annað ef við værum í milljónaborg. Þá væri þessi hópur hjá mér kannski þrisvar, fjórum sinnum stærri. Þetta eru bara breytingar sem verða og þá náttúrlega fara svona kallar eins og ég bara út í kuldann,“ segir hann.
Ragnar bendir á að hann hafi á undanförnum tíu árum lagt metnað sinn í að byggja upp gott safn af kvikmyndum frá öllum heimshornum og lagt í það mikla fjármuni. „Ég hef lagt áherslu á að vera með almennilega kvikmyndaleigu með myndum frá öllum heimsálfum, hvort sem það er Asía, Afríka, Suður-Ameríka eða Evrópa. En núna er þetta á brunaútsölu í Grensásvideoi.“
Efni Grensásvideos verður nú boðið til sölu á næstu dögum á útsölu að sögn Ragnars. Hann segist hafa byrjað í gær og dag fyrir Facobook-vini myndabandaleigunnar en á morgun verði útsalan auglýst. „Þannig að í raun og veru er búðin bara opin núna og allt til sölu og verður það á meðan það tekur því að hafa opið. Eitthvað út febrúar, svo lengi sem er eitthvað til að selja.“