„Heilt yfir hefur engin atvinnugrein komið jafn illa út úr hruninu og verslunin.“ Þetta sagði Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga á Hótel Sögu í dag. Þar var rætt um hvort skattar væru að sliga fyrirtækin í landinu og sagði Margrét að mikið væri lagt á verslunina, en á móti fengi hún litla sem enga aðstoð frá ríkinu.
Hún ítrekaði kröfu samtakanna um sanngjarnt rekstrarumhverfi á alþjóðavettvangi. „Hvað biðjum við um“ spurði Margrét og svaraði því til „að rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar verði samkeppnishæft við það sem er í nágrannalöndunum, engar sérkröfur“.
„Ef okkur eru ekki sköpuð sömu skilyrði og erlendis flyst verslun bara úr landi“ segir Margrét.“ Við erum enn að berjast í sömu málum og við vorum að berjast í fyrir 20 árum“ og benti þar til baráttunnar um vörugjöld og tolla. Nefndi hún í því samhengi mikla baráttu um einföldun kerfisins og lagði meðal annars til að neðra virðisaukaskattskerfið yrði hækkað, en í staðin væru vörugjöld lögð niður. Það myndi einfalda skattakerfið fyrir fyrirtækin og auðvelda innheimtu hins opinbera.