Hollenska ríkið hefur tekið yfir rekstur hollenska bankans og tryggingarfélagsins SNS Reaal og leggur honum til 3,7 milljarða evra, 638 milljarða króna.
Fjármálaráðherra Hollands, Jeroen Dijsselbloem, greindi frá þjóðnýtingunni á blaðamannafundi í dag. „Í dag hefur hollenska ríkið tekið SNS Reaal yfir. Ég hef þjóðnýtt SNS Reaal,“ sagði Dijsselbloem á blaðamannafundinum en frestur sem Seðlabanki Hollands gaf til þess að finna lausn á vanda bankans var runninn út.
Þegar tímamörk Seðlabanka Hollands runnu út í gærkvöldi án þess að lausn væri fundin á vandanum var komin upp hættuleg staða fyrir fjámálastöðugleikann, staða sem finna varð lausn á strax, segir Dijsselbloem. Þjóðnýting var eina lausnin, bætti hann við.
Helsta ástæðan fyrir vanda bankans er lélegt eignasafn bankans.