104 milljóna kaupum rift með dómi

Hæstaréttur Íslands dæmdi í dag Skarphéðinn Berg Steinarsson til að …
Hæstaréttur Íslands dæmdi í dag Skarphéðinn Berg Steinarsson til að endurgreiða þrotabúi Baugs Group hf. rúmar 104 milljónir auk vaxta vegna riftunar á kaupsamningi um hlutabréf í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Brynjar Gauti

Hæstiréttur rifti í dag greiðslum Baugs Group hf. samkvæmt samningi frá 1. september 2008 til Skarphéðins Bergs Steinarssonar, um kaup á hlutafé í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Annarsvegar var um að ræða 60.000.000 krónur, sem innt var af hendi 3. september 2008 og hinsvegar að fjárhæð 44.575.957 krónur sem innt var af hendi 27. október sama ár.

Skarphéðni var samtals gert að greiða þrotabúi Baugs Group hf. 104.575.957 krónur með dráttarvöxtum frá 14. október 2010 til greiðsludags. Auk þess var Skarphéðni gert að greiða 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Sneri við dómi héraðsdóms frá 2012

Með þessum dómi snéri Hæstiréttur við dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. apríl 2012 þar sem Skarphéðinn Berg var sýknaður af kröfum stefnanda, þrotabúi Baugs Group hf. og því félagi gert að greiða honum tvær milljónir í málskostnað.

Málið á sér nokkra forsögu en Skarphéðinn Berg Steinarsson seldi Baugi Group hf. allt hlutafé sitt í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. þegar hann hætti störfum fyrir Baug og fór til starfa fyrir Fasteignafélagið Stoðir hf. sumarið 2007.

Auk þess að hafa fengið 60 milljónir við undirritun kaupsamnings og 44.575.957 kr. einhverju síðar fékk Skarphéðinn bíl frá Baugi og greiðslu upp á 205.000 evrur, andvirði 21,6 milljónir íslenskra króna fyrir hlut sinn í BGE Eignarhaldsfélagi ehf.

Höfðuðu mál gegn stefnda í janúar 2010

Þrotabú Braugs Group hf. höfðaði mál á hendur stefnda í janúar 2010 en það mál var fellt niður í september. Í kjölfarið höfðaði þrotabúið annað mál mánuði síðar. Í héraði var dómkvaddur sérfróður maður til að meta virði hlutafjár Skarphéðins Bergs í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. miðað við 1. september 2008.

Niðurstaðan var sú að eignir félagsins hefðu verið annarsvegar hlutafé í Baugi Group hf. að bókfærðu virði tæpir 1,9 milljarðar króna og hinsvegar lánveitingar til hluthafa upp á rúma 3,4 milljarða króna. Aðrar eignir hafi verið óverulegar. Þá hafi skuldir numið liðlega 4,4 milljörðum og eigið fé því tæpar 892 milljónir króna.

Seldi hlutabréf í verðlausu félagi

Í dómnum segir ennfremur um niðurstöður matsins: „Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar sagði að miðað við þróun í rekstri Baugs Group hf. á árinu 2008, þar sem fjármálamarkaðir hafi verið mjög erfiðir og fjármögnunarmarkaðir innanlands nær lokaðir, teldi matsmaður annað útilokað en að eigið fé Baugs Group hf. hafi rýrnað verulega frá desember 2007 fram í september 2008 sem matið miðaðist við. Þessi rýrnun hafi verið svo veruleg að hún ein hafi dugað til að eyða eigin fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. Einnig kom fram í matsgerðinni að stærstu skuldunautar félagsins hafi verið tveir nafngreindir starfsmenn Baugs Group hf., en kröfur á hendur þeim hafi samtals numið um 1.868 milljónum króna. Taldi matsmaður öldungis ljóst að þessi tveir menn hafi í september 2008 ekki haft bolmagn til að greiða þessar skuldir þegar virði hlutabréfa í Baugi Group hf. á móti skuldum hafði hið minnsta rýrnað verulega. Að öllu þessu virtu taldi matsmaður einsýnt að eigið fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. hafi verið algerlega uppurið 1. september 2008 og því hafi eignarhlutur stefnda í félaginu á þeim tíma verið einskis virði.“

Bú BGE Eignarhaldsfélags ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 26. maí 2010.

Stefndi reyndi ekki að hnekkja mati um eignir búsins

Í niðurlagi dómsins segir: „Samkvæmt matsgerð sem áfrýjandi hefur aflað var allt eigið fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. uppurið og eignarhlutur stefnda í félaginu verðlaus þegar hann seldi hlutinn 1. september 2008. Stefndi hefur ekki hnekkt þessu mati með yfirmati eða á annan hátt. Telst því sannað að sú ráðstöfun sem fólst í greiðslu peninga frá Baugi Group hf. til stefnda hafi verið örlætisgerningur í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu verður riftunarkrafa áfrýjanda tekin til greina. Með skírskotun til 1. mgr. 142. gr. sömu laga verður stefnda þar af leiðandi gert að endurgreiða þá fjárhæð sem hann fékk á grundvelli samningsins um sölu á hlut sínum í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Engin efni eru til að fallast á kröfu stefnda um að endurgreiðslukrafan á hendur honum verði lækkuð.

Áfrýjandi krefst dráttarvaxta frá 23. október 2009 til greiðsludags. Að því gættu að fyrra mál af sama tilefni féll niður vegna útivistar áfrýjanda þykir rétt að dráttarvextir verði reiknaðir frá 14. október 2010 þegar málið var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.“

Skarphéðinn Berg Steinarsson.
Skarphéðinn Berg Steinarsson. mbl.is/Brynjar Gauti
Baugur Group
Baugur Group mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK