Fórum bestu leiðina eftir hrun

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Íslendingar völdu bestu leiðina eftir hrunið með því að leyfa bönkunum að falla, en setja svo upp fjármagnshöft og draga þannig úr mögulegum áföllum sem gætu riðið yfir fjármálakerfið. Þetta kemur fram í skýrslu sem Þorsteinn Þorgeirsson, ráðgjafi seðlabankastjóra, og Paul van den Noord, ráðgjafi aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóra OECD kynntu í Seðlabankanum í dag.

Fjórar sviðsmyndir

Settu þeir upp fjórar sviðsmyndir og báru þær saman við núverandi stöðu. Niðurstaða þeirra var á þann veg að hvort sem ríkinu hefði borið að greiða Icesave skuldbindinguna á vaxtakjörum fyrsta samningsins eða ekki, þá hefði besta leiðin verið farin.

Í fyrstu sviðsmyndinni er gert ráð fyrir meiri innspýtingu frá opinberum fjármálum og er sú leið kölluð hagvaxtahvetjandi sviðsmynd. Þar fæst meiri hagvöxtur, en eykur um leið skuldir hins opinbera sem hækkar vaxtaálagið til framtíðar. Það mun svo leiða til minni hagvaxtar til lengri tíma.

Þorsteinn sagði í samtali við mbl.is að sú mynd væri ekki vænlegur kostur. „Það er verið að taka af höggið aðeins meira, en það leiðir til að niðurstaðan til lengdar verður verri. Það væri því ekki vænlegri kostur en sú sem farin var.“

Erfið lækning

Önnur sviðsmyndin fékk nafnið „erfið lækning“, en í því tilfelli er ekki gripið til fjármagnshafta, heldur er genginu leyft að falla þangað til það finnur sitt eigið jafnvægi. Þá er gert ráð fyrir meira aðhaldi í ríkisfjármálum heldur en í grunnspánni.

Áhrif þessarar leiðar eru að hagvöxtur dettur mjög mikið niður og verðbólgan verður mun minni þegar fram í sækir vegna verðhjöðnunar og atvinnuleysi meira. Þá verður samkeppnisstaða betri, en hagur heimilanna verður mjög erfiður. „Frekari lækkun gengis hefði ekki verið  góð lausn í þeim vanda sem við vorum í og þessi sviðsmynd skilar ekki þeim árangri sem við hefðum viljað“ sagði Þorsteinn.

Með því að yfirfæra skuldbindingar einkaaðila yfir á hið opinbera í tengslum við Icesave málið var þriðja svipmyndin teiknuð upp. Þar er gefið að vaxtagjöld fyrsta Icesave samningsins hefðu verið tekin um borð og greidd á 6 til 7 árum.

Þorsteinn segir þessa sviðsmynd vera vægari en aðrar: „Við fáum ekki út neina hagvaxtaraukningu, en þetta er mildasta sviðsmyndin af þessum fjórum.“ Hann telur að þessi leið hefði skilað allt að 12% af landsframleiðslu í aukin ríkisútgjöld vegna vaxtagreiðslna úr landi, meðan hagvaxtaleiðin hefði kostað um 16% af landsframleiðslu.

Brjóstvitið fékk að skína

Í fjórðu sviðsmyndinni, sem kölluð er „bankabjörgunin“, hefði verið farin sama leið og Írar gerðu. „Hagvöxturinn hefði verið minni allan tímann vegna stóraukinna skulda og aukins fjárlagahalla. Það eykur vexti sem dregur úr hagvexti þegar fram í sækir“ segir Þorsteinn, en hann telur þessa leið, ásamt „erfiðu lækningunni“ vera þær tvær minnst eftirsóknaverðu.

Aðspurður um það hvort Ísland hafi farið bestu leiðina miðað við þessar niðurstöður taldi hann svo vera. „Ég held að brjóstvitið hafi fengið að skína“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK