Sigur íslenska ríkisins í Icesave-deilunni ætti að auðvelda afnám gjaldeyrishafta, að því er Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra segir í viðtali við Financial Times í dag.
Katrín segir í viðtalinu að mikilli óvissu hafi verið eytt með niðurstöðu dómsins.
„Í fyrsta lagi er óvissunni eytt,“ segir Katrín. „Það er jákvætt. Það mun hjálpa okkur að afnema gjaldeyrishöftin.“
Í frétt Financial Times segir að gjaldeyrishöftin, sem hafi verið sett á til að hindra enn frekara fall krónunnar, sé stærsti höfuðverkur þeirra sem munu sigra alþingiskosningarnar í vor. Margir óttist að verði þeim aflétt of snöggt eða með röngum hætti gæti það stefnt þeim efnahagsbata sem unnið hefur verið að í voða.
Katrín segir að nú sé auðveldara að horfa fram á veginn. „Gjaldeyrishöftin geta verið úr veginum fyrr en seinna,“ segir hún í viðtalinu.