„Framtíðarskipan og eignarhald fjármálakerfisins er mikið hagsmunamál allra landsmanna og mikilvægt að úr þeirri stöðu verði leyst og Framtakssjóðurinn hefur hreyft við hugmyndum að því að leysa úr núverandi stöðu. Þær þreifingar eru skammt á veg komnar og óvarlegt að tjá sig meira um það að svo stöddu.“
Þetta segir Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi Framtakssjóðs Íslands, í svari við fyrirspurn frá mbl.is um aðkomu sjóðsins að mögulegu kaupum á Íslandsbanka. Eins og fjallað var um á mbl.is í morgun hefur slitastjórn Glitnis átt í viðræðum við hóp fjárfesta sem Framtakssjóðurinn, sem sextán lífeyrissjóðir standa að, fer fyrir um kaup á bankanum en í hópnum eru meðal annars hluthafar í MP banka sem hefur milligöngu í málinu. Um óformlegar viðræður hefur verið að ræða samkvæmt heimildum vefsins.
„Framtakssjóðurinn hefur frá stofnun árið 2009 komið að endurreisn og uppbyggingu fjölmargra lykilfyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Að baki sjóðnum standa m.a. 16 lífeyrissjóðir almennings. Sjóðurinn hefur lengi horft á fjármálageirann þar sem ljóst er að núverandi eignarhald þjónar ekki langtímahagsmunum samfélagsins og atvinnulífsins,“ segir ennfremur í svarinu.