Fulltrúi Þjóðverja í stjórn seðlabanka Evrópu (ECB), Jörg Asmussen, sagði í dag að Frakkar yrðu að ná fjárlagahallanum niður fyrir 3% af vergri landsframleiðslu á þessu ári. Yfirlýsing hans er til marks um vandamál sem stefni sambandi Frakka og Þjóðverja í hættu.
Forsætisráðherra Frakka, Jean-Marc Ayrault, tilkynnti í fyrrakvöld að samdráttur í efnahagslífinu yrði þess valdandi að stjórn hans myndi ekki takast að lækka hallann úr 4,5% fyrir árið 2012 í 3% um næstu áramót, eins og stefnt hefði verið að.
Asmussen, sem er fyrrverandi fjármálaráðherra í stjórn Angelu Merkel, sagði að Þjóðverjar og Frakkar yrðu að ganga á undan með góðu fordæmi fyrir önnur Evrópuríki. Þessar tvær þjóðir hefðu sérstökum skyldum að gegna í þágu stöðugleika með því að virða vaxtar- og stöðugleikasáttmála ESB.
„Persónulega er ég á því að það sé afar áríðandi að Frakkar komi hallanum undir 3% í ár,“ sagði Asmussen við þýska útvarpið, Deutschlandfunk radio.
Talsmaður fjármálaráðuneytisins í Berlín, Johannes Blankenheim, sagði af þessu tilefni að ríki yrðu að uppfylla skuldbindingar sínar vegna sáttmála og samþykkta ESB.