Nýi 10 þúsund króna peningaseðillinn sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri boðaði á 51. ársfundi Seðlabanka Ísland, í mars 2012, verður settur í umferð á þessu ári. Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Már að fyrstu seðlarnir kæmu til landsins með lóunni, sem kæmi við sögu á seðlinum.
Á ársfundinum í fyrra sagði Már að Seðlabankinn hefði þegar hafið undirbúning að útgáfu peningaseðilsins. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kom svo fram að hönnun væri lokið og fyrstu seðlarnir væntanlegir til landsins. Seðillinn mun vera búinn fleiri og fullkomnari öryggisþáttum en áður hefur þekkst hér á landi. Myndefni seðilsins mun tengjast Jónasi Hallgrímssyni og að auki skarta lóunni.