Eina leiðin til þess að takast á við efnahags- og skuldavanda evrusvæðisins er aukin fjárhagsleg samþætting evruríkjanna. Þetta er á meðal þess sem fram kom í erindi sem Peter Bekx, yfirmaður alþjóðlegra efnahags- og fjármála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, flutti á hádegisfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um skuldavanda Evrópuríkja og framtíð evrunnar sem fram fór á Hótel Sögu í dag.
Hann sagði ljóst að ef fjárhagsleg samvinna evruríkjanna væri aukin með þessum hætti yrði einnig að fylgja því eftirlit með fjárlögum ríkjanna af hálfu Evrópusambandsins og yfirstjórn í þeim efnum upp að ákveðnu marki. Þróunin væri ekki enn komin svo langt að unnið væri að stofnun evrópsks fjármálaráðuneytis eins og haldið hefði verið fram í fjölmiðlum en engu að síður yrði að koma á fót evrópskri stofnun sem hefði meira um fjárlög evruríkjanna að segja en staðan væri í dag og ennfremur heimildir til þess að afla fjármuna og leggja á skatta til þess að fjármagna verkefni á vegum Evrópusambandsins.
Styrkja þurfi stöðugleikasáttmálann
Verkefnið framundan til skamms tíma er að sögn Bekx að vinna áfram að þróun bankabandalags innan Evrópusambandsins og til lengri tíma að klára bandalagið sem og að styrkja þá umgjörð sem evrusvæðið starfar innan meðal annars með því að bæta stöðugleikasáttmála svæðisins sem kveður meðal annars á um að fjárlagahalli ríkja megi ekki vera meiri en sem nemur 3% af landsframleiðslu.
Stöðugleikasáttmálinn var settur á laggirnar á tíunda áratug síðustu aldar en síðan hefur ítrekað verið brotið einkum gegn ákvæði hans um leyfilegan fjárlagahalla og þá einkum af Frakklandi og Þýskalandi. Hins vegar hefur lítið verið beitt refsiheimildum vegna þess sem hefur skaðað trúverðugleika sáttmálans. Bekx sagði að eitt af því sem þyrfti að bæta í þeim efnum væri að slíkum heimildum yrði beitt sjálfkrafa að uppfylltum ákveðnum efnahagslegum skilyrðum.
Mikilvægt að geta hjálpað bönkum beint
Varðandi bankabandalagið sagði Bekx að fyrir utan það eftirlit sem bandalaginu væri ætlað að hafa með bönkum á evrusvæðinu væri ekki síður mikilvægt að í gegnum það gætu björgunarsjóðir Evrópusambandsins komið bönkum til aðstoðar með beinum hætti í stað þess að þurfa að gera það í gegnum viðkomandi ríkisstjórnir sem þýddi að formleg skuldastaða ríkjanna versnaði fyrir vikið.
Hann ræddi ennfremur stuttlega um einstök evruríki sem glímt hafa við mikinn efnahagsvanda og sagði Írland vera á réttri leið á meðan jákvæð skilaboð bærust frá öðrum ríkjum eins og Portúgal og Spáni. Þá sagði hann að staðan í Grikklandi væri allt önnur og betri í dag en fyrir tveimur árum vegna þeirra efnahagsaðgerða sem þarlend stjórnvöld hefðu gripið til vegna efnahagsvanda landsins.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, var í pallborði ásamt Bekx og sagði hann meðal annars að ein mikilvægasta aðgerðin sem gripið hefði verið til á vettvangi Evrópusambandsins til þess að bregðast við efnahagsvanda evrusvæðisins hefði verið ákvörðun Evrópska seðlabankans á síðasta ári að gerast lánveitandi til þrautavara fyrir banka á evrusvæðinu sem hann hefði aðeins verið að takmörkuðu leyti áður.