Verið er að reisa nýja kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal við hlið þeirrar sem fyrir er og eru framkvæmdir langt á veg komnar.
„Þetta er alveg nýr þurrkari sem við erum að reisa og með þessu erum við fyrst og fremst að tryggja rekstraröryggi okkar,“ segir Guðmundur V. Magnússon, verksmiðjustjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, en með núverandi þurrkara er aðeins hægt að framleiða 35.000-40.000 tonn af kalki á ári en starfsleyfi verksmiðjunnar heimilar framleiðslu á 50.000,“ samkvæmt frétt á BB.
Með tilkomu nýja verksmiðjuhúsnæðisins mun fyrirtækið eflast og styrkjast að sögn Guðmundar.
Nýja verksmiðjuhúsnæðið og þurrkarinn eru nú langt á veg komin, en í dag er þakið ekki komið á húsið. „Þetta verður mjög snyrtilegt og fínt þegar strompurinn og þakið kemur á,“ segir Guðmundur og bætir því við að þrátt fyrir breytingarnar og meira umfang starfseminnar muni ekki verða sjáanleg aukning á starfsmönnum.
Þrátt fyrir að starfsmönnum muni ekki fjölga mikið í kjölfar stækkunarinnar segir Guðmundur að fyrirtækið hafi mikil og hagkvæm áhrif á Bíldudal og Vesturbyggð í heild. „Hér sigla erlend skip til hafnar og greiða því hafnargjöld, við erum með lóðaleigusamninga og greiðum hér útsvar. Svona starfsemi hefur gríðarlega jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins, en allir stjórnendur fyrirtækisins eru búsettir á Bíldudal,“ segir Guðmundur, sem segir að rekstur síðasta árs hafi gengið vonum framar.