Vísitala neysluverðs hefur ekki hækkað jafn mikið í einum mánuði og nú síðan í nóvember 2008, sem var þá rétt eftir mikla lækkun á gengi krónunnar en innfluttir liðir vega langþyngst í hinni miklu hækkun nú líkt og þá var. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Samkvæmt nýbirtri mælingu Hagstofu Íslands hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 1,64% á milli janúar og febrúar. Var hækkunin langt umfram það sem greiningardeildir höfðu spáð. Opinberar spár lágu á bilinu frá 1,0% til 1,2% hækkunar milli mánaða
„Eins og búast mátti við þá lita áhrif útsöluloka verulega mánaðarmælingu VNV að þessu sinni, enda voru útsöluáhrifin óvenjudjúp í janúar. Þó gengu útsöluáhrif til baka af mun meiri krafti en við höfðum reiknað með, og hækkaði verð á fötum og skóm um 11,7% (+0,63% í VNV) í febrúar.
Verð á bílum hækkaði um 2,1%
Ferðir og flutningar hækkuðu um 3,2% milli mánaða (+0,57% í VNV), og vegur þar þyngst 5,3% hækkun á eldsneytisverði (+0,33% í VNV), 2,1% hækkun á bifreiðaverði (0,12% í VNV) og 5,1% hækkun á flugfargjöldum til útlanda (+0,09% í VNV). Var hækkun á ferða- og flutningaliðnum nokkuð umfram það sem við bjuggumst við, sem má einkum rekja til þess að hækkun á bifreiðaverði var umfram spá okkar.
Dágóð hækkun varð á mat og drykkjarvörum í mánuðinum, og hækkaði sá liður um 0,8% milli mánaða (+0,11% í VNV). Þá hækkaði húsnæðisliður vísitölunnar lítillega, en vísbendingar voru um lækkun á þeim lið. Hækkaði reiknuð húsaleiga um rúm 0,2% á milli mánaða, þar sem lækkun raunvaxtarþáttar vó gegn 0,4% hækkun á markaðsverði húsnæðis,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Krónan hefur styrkst um 4% á nokkrum dögum
Nemur styrking krónunnar gagnvart evru hátt í 4% frá 19. febrúar, samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka og hefur evran ekki verið ódýrari í krónum talið síðan snemma í desember sl.
„Jafnframt hefur bensínverð hér innanlands tekið að lækka að nýju eftir dágóða hækkun frá því í desember, og miðað við þróun á helstu áhrifaþáttum þess er ekki útséð að frekari lækkana sé að vænta á því næsta kastið. Má hér nefna að talsverð lækkun hefur verið á olíuverði á heimsmarkaði, en frá því um miðjan mánuðinn hefur tunnan af Brent-olíu lækkað um 5%. Jafnframt gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar hækkað um tæp 2,0% frá því að verðbólguspá okkar fyrir febrúar lá fyrir, sem ætti þá að ýta undir lækkun á eldsneytisverði hér innanlands,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.