Í vor verður farið í fyrsta skrefið af bíódísilframleiðslu á Blönduósi, en þá verður hafin söfnun á fitu frá sláturhúsinu á staðnum. Gangi allt að óskum ætlar bærinn að ráðast i uppbyggingu á bíódísilframleiðslustöð strax á næsta ári sem gæti framleitt eldsneyti sem nýtist 400 til 2000 bifreiðum. Þetta er fyrsta stóra uppbyggingin á Blönduósi í atvinnumálum í nokkurn tíma og kemur hún til sem nýsköpunarhugmynd.
Upphafið að þessu verkefni kom til árið 2010 þegar urðunarsvæðið við Stekkjarvík var opnað. Í samningum um svæðið var ákvæði um að óheimilt væri að urða sláturúrgang. „Það þýddi að við þurftum að finna lausnir við að takmarka magn slátursúrgangs sem fellur til á svæðinu“ segir Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi, í samtali við mbl.is.
Menn voru fljótir að sjá tækifærin í þessu vandamáli að sögn Arnars og snéru því upp í tækifæri. „Í þessari vinnu áttuðum við okkur á því að í stað þess að fitan sé vandamál þá er hún auðlind“.
Í samvinnu við Málmey stálsmiðju var sett upp fituskilja sem grípur alla þá fitu sem fer um fráveitukerfi sláturhússins. Að sögn Arnars eru um 3000 tonn sem falla til af fitu í héraðinu við slátrun.
Framleiðslan sem kæmi til á Blönduósi myndi duga í um 600 þúsund lítra af bíódísil að sögn Arnars, en það samsvarar eldsneyti á um 400 bifreiðar á ársgrundvelli. Hann segir að með frekari útvíkkun starfseminnar mætti horfa til þess að framleiðslan gæti dugað fyrir um 2000 bifreiðar hér á landi.
„Árið 2014, ef allt gengur eftir, þá munum við fara í að reisa fullkomna bíódísilframleiðslustöð með tilheyrandi byggingum“ segir hann, en til að byrja með skapar framleiðslan 3 til 5 störf Mögulegt er að sú tala hækki með aukinni starfsemi.