Birgir Þór Bieltvedt fjárfestir mun opna Joe & the Juice-staði, sem stofnaðir voru í Danmörku, á Íslandi. Þar fást t.d. hollir ávaxtadrykkir, samlokur og kaffi. Þetta er í raun kaffihús sem leggur ríka áherslu á hollustu og líflegt andrúmsloft.
„Við erum að leita að heppilegum stöðum og munum opna eins fljótt og hægt er,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið og nefnir að staðirnir verði að lágmarki fimm.
Hann stofnaði Dominos á Íslandi árið 1993, seldi það árið 2005 en leiddi hóp fjárfesta og keypti pitsustaðina aftur árið 2011. Pitsustaðirnir eru 15 en innan skamms verða þeir 17. Birgir er með réttinn til að reka Dominos í Noregi og vinnur að því að opna þar staði. Hann er auk þess stjórnarformaður danska tískuhúsins Day Birger et Mikkelsen.