Íslenska teiknimyndafyrirtækið GunHil kynnti í morgun nýja tölvugerða fjölskylduteiknimynd fyrir alþjóðlega dreifingu á Cartoon Movies, stærstu teiknimyndaráðstefnu Evrópu sem er haldin í Lyon í Frakklandi. Kvikmyndin, sem ber heitið Lói – þú flýgur aldrei einn (e. PLOE – You Never Fly Alone), fjallar um lítinn lóuunga sem kemur síðastur úr eggi og á erfitt uppdráttar í lífinu.
Friðrik Erlingsson skrifar söguna og handritið að myndinni sem verður í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar og Gunnars Karlssonar sem jafnframt hannar útlit og persónur myndarinnar.
Myndin er framleidd af Hilmari Sigurðssyni og Hauki Sigurjónssyni. Heildar framleiðslukostnaður myndarinnar er um 1,2 milljarðar króna og verður hún framleidd á Íslandi og í Þýskalandi. Gert er ráð fyrir að á Íslandi verði unnin um 80 ársverk í tengslum við framleiðslu myndarinnar sem er áætlað að frumsýna í lok árs 2015.
Í kjölfar kynningarinnar í morgun, þá undirritaði GunHil tvo staðfestingarsamninga í tengslum við framleiðslu myndarinnar. Annar samningurinn er meðframleiðslusamningur við Trixter, eitt stærsta teikni- og tölvubrellufyrirtæki Þýskalands og munu þeir fjármagna og framleiða um helming myndarinnar. Trixter hefur unnið að fjölda kvikmynda, en meðal þeirra eru Iron Man 1-3, The Avengers og Journey 2. Fyrirtækið er með starfstöðvar í Munchen, Berlín og Los Angeles og hjá því vinna á þriðja hundrað manns.
GunHil var stofnað í apríl 2012 af Gunnari Karlssyni og Hilmari Sigurðssyni sem hafa unnið lengi saman í skapandi greinum. Ásamt þeim er Haukur Sigurjónsson einn eigenda og veitir hann Svíþjóðarskrifstofu fyrirtækisins forstöðu. Gunnar var meðleikstjóri ásamt því að vera hönnuður útlits og Hilmar annar aðalframleiðenda á Hetjum Valhallar – Þór, fyrstu íslensku teiknimyndinni í fullri lengd sem kom út hér á landi haustið 2011.